135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands.

442. mál
[15:25]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gerast mjög langorður. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert ágætlega grein fyrir afstöðu okkar til þessa frumvarps. Við höfðum sitthvað við það að athuga þegar það upphaflega kom fram. En á frumvarpinu hafa verið gerðar mikilvægar breytingar í meðförum utanríkismálanefndar sem við teljum vera mjög til bóta. Þar má sérstaklega nefna tilkomu þróunarsamvinnunefndar sem tengir þróunarsamvinnuna betur við Alþingi en við höfðum upphaflega gagnrýnt og gerum reyndar enn, áform um að tengja þróunarstarfið rækilegar inn í og inn undir utanríkisráðuneytið. Við hefðum kosið að þetta væri sjálfstæð stofnun sem væri svona lausbeisluð frá utanríkisráðuneytinu og höfum gert rækilega grein fyrir því hvers vegna við teljum það æskilegt.

Hv. þm. Árni Páll Árnason, varaformaður utanríkismálanefndar, setti fram ágæt rök fyrir því að það gæti verið æskilegt að hafa tengsl á milli þróunarsamvinnunnar og friðargæslunnar ef okkur auðnaðist að færa friðargæsluna inn í annan farveg en hún hefur verið í að undanförnu, þ.e. inn í borgaralegri farveg og út úr hernaðarfarveginum. En eins og við þekkjum þá hafa Íslendingar verið eins konar hreinsideild sem hefur komið á vettvang eftir að Bandaríkjamenn hafa farið sprengjandi um héruð.

Ég er enn með efasemdir um þetta. Einfaldlega vegna þess að ég treysti ekki stjórnvöldum. Ég treysti ekki núverandi ríkisstjórn til að hafa uppi þessa stefnu enda held ég að það sé vandfundin ríkisstjórn á byggðu bóli þar sem eins andheitur stuðningur er við stefnu NATO og er einmitt frá þessari ríkisstjórn og frá núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hefur tekið undir áform NATO nánast í hverju sem er og á ákaflega gagnrýnilítinn máta. Og kemur þá á óvart það sem segir hér í upphafi greinargerðar með þessu frumvarpi, að hornsteinar nýrrar utanríkisstefnu séu mannréttindi, þróunarsamvinna og friðsamlegar lausnir. Og ég spyr: Hvenær varð breyting þarna á og í hverju liggur sú breyting?

Síðan er ein pínulítil athugasemd sem ég hef oft gert við frumvörp sem fram koma um nýjar stofnanir og hún lýtur að hæfniskröfum stjórnenda. Það var gert ráð fyrir því í upphaflegu frumvarpi að forstjóri þessarar stofnunar eða forstöðumaður hefði háskólamenntun. Nú er talað um að hann hafi lokið háskólaprófi. Í hverju? Grísku, dönsku, reikningi? Í hverju? Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Og hvers konar móðgun er þetta gagnvart öðru fólki sem hefur lagt stund á annað nám en í háskóla eða stundað önnur störf?

Það segir jú í frumvarpinu að viðkomandi skuli hafa þekkingu á þessari starfsemi. En að setja svona í lög, að það skuli ófrávíkjanleg krafa, lögbundin krafa um að fólk skuli hafa lokið einhverju háskólaprófi, ég held að nefndin ætti að taka þessa klásúlu til endurskoðunar.