135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:05]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er merkilegt að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, svarar í engu spurningum mínum um það af hverju Vinstri grænir sáu því allt til foráttu þegar Grund fékk það aukna hlutverk að sinna eldri borgurum. Af hverju virkar sá einkarekstur ekki í hugum Vinstri grænna? Ég vil fá einhverja skýringu frá Vinstri grænum á því hvaða einkaaðilar hugnast þeim og hverjir ekki. Auðvitað gerir Grund það ekki. (ÖJ: Spurðu fólkið í Landakoti.) Ég veit ekki betur en að Grund sé ekki rekin út frá einhverjum hagnaðarsjónarmiðum.

Mér finnst allt í lagi að hér séu heilbrigðisfyrirtæki, svo að ég leyfi mér að nota það orð, ef við höfum þau skilyrði uppfyllt sem alltaf er verið að tyggja ofan í hv. þingmenn. Þau skilyrði að ekki megi mismuna fólki, að þjónustan batni, að biðlistarnir hverfi. Þetta get ég kvittað upp á sem jafnaðarmaður og vinstri maður og tekið þar með hag sjúklinga í framtíðinni fram yfir einhver trúarbrögð og einhverja hugmyndafræðilega kreddu Vinstri grænna í þessu máli. Við sjáum líka að langflestir umsagnaraðilar, hvort sem litið er til Landspítalans, (Forseti hringir.) heilsugæslunnar, Öryrkjabandalagsins, Landssambands eldri borgara, landlæknis, lýsa yfir ánægju með hugmyndafræðina í frumvarpinu. (Forseti hringir.) Hv. þingmenn Vinstri grænna eru gjörsamlega einangraðir í þessari umræðu fyrir utan kannski BSRB.