135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[17:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum afar þýðingarmikið lagafrumvarp sem ég tel að komi til með að hafa miklar afleiðingar um langa framtíð. Það lætur ekki ýkjamikið yfir sér og það er ljóst þegar umsagnir um frumvarpið eru skoðaðar að menn bregðast við ýmsum þáttum í þessum viðamikla lagabálki.

Í upphafsorðum mínum langar mig til að víkja að því sem ýmsir stjórnarsinnar hafa sagt um aðkomu stéttarfélaga, verkalýðshreyfingarinnar, að umræðu um þessi mál. Þá hafa tengslin við stærstu heildarsamtök opinberra starfsmanna, starfsfólks á sviði velferðarþjónustunnar og innan heilbrigðiskerfisins verið gagnrýnd sérstaklega og reynt að gera tortryggileg tengslin á milli þessara samtaka og mín sem hér stend og er formaður BSRB. Hér hefur komið fram þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem spurði með nokkrum þjósti hvort samtökin hefðu verið spurð leyfis um að vitna í fyrirlesara sem hingað til lands hafa komið á vegum samtakanna. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega komin í þjóðfélagsumræðu á Íslandi? Er bannað að leita sér upplýsinga? Er bannað að flytja fróðleik til landsins? Er bannað að reyna að hafa áhrif á þjóðfélagsumræðuna ef þú kemur úr tiltekinni átt? Ekki er bannað að hlusta á Samtök atvinnulífsins, Viðskiptaráð eða bankana. Við sátum á fundi í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fyrir tveimur dögum og hlustuðum á fulltrúa allra þessara aðila. Það er fullkomlega eðlilegt. Ef við viljum búa í fjölþátta kröftugu lýðræðislegu þjóðfélagi þá fögnum við því þegar upplýsingar eru settar fram og bornar fram á okkar borð en reynum ekki að drepa umræðunni á dreif með þessum hætti og gera hana tortryggilega.

Þar sem hv. þm. Ásta Möller gengur í salinn, formaður heilbrigðisnefndar, og vísað hefur verið í aðkomu stéttarfélagsfólks, því hún er fyrrverandi formaður í stóru stéttarfélagi, félagi hjúkrunarfræðinga, þá leyfi ég mér að furða mig á því að hún skuli ætla að samþykkja lagafrumvarp sem gerir það ólöglegt að félagasamtök á borð við hjúkrunarfræðinga og Ljósmæðrafélags Íslands geri samninga við ríkið um aðskiljanlega þætti eins og kveðið er á um í lögum nú og er heimilt. Það verður að setja bann við þessu. Við fengum markaðssinna úr Samfylkingunni áðan, varaformann þess flokks, hv. þm. Ágúst Ólaf Ágústsson, sem fagnaði þessu sérstaklega, að hér eftir yrði félagasamtökum meinað að koma að slíku samningaborði því nú værum við að fara inn á raunverulegt samkeppnissvið.

Hæstv. forseti. Mig langar til að víkja að grundvallaratriðum í þessu máli. Mig langar til að ræða pínulítið um pólitíkina sem býr að baki og mig langar til að hverfa eitt ár aftur í tímann eða rúmlega það, þegar Geir H. Haarde, hæstv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins ávarpaði flokksmenn sína í Valhöll, það mun hafa verið um mánaðamótin september/október árið 2007. Hann sagði, og af því var birt frásögn í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni, Verulegar breytingar í heilbrigðiskerfinu fram undan, að nú ætti að taka til hendinni, að nú væru miklir möguleikar í augsýn. Hverjir voru þessir möguleikar sem hann sagði vera „í pípunum“? Þannig komst hann að orði. Hann sagði og nú vitna ég orðrétt í hæstv. forsætisráðherra, formann Sjálfstæðisflokksins, með leyfi forseta:

„Þar eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar voru og hefðu ekki verið.“

Prófessor í heilbrigðisfræðum við Háskóla Íslands, Rúnar Vilhjálmsson, hefur gefið ítarlega umsögn um þetta frumvarp. Hann segir okkur í umsögn sinni að hér sé komið stjórntæki, lagalegur grundvöllur til að einkavæða heilbrigðiskerfið. Á þetta bendir prófessorinn í umsögn sinni. Hér er kominn lagalegur grundvöllur til að framkvæma þá stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn boðaði í Valhöll fyrir rúmu ári og Samfylkingin hefur síðan hlaupið undir bagga með að koma í framkvæmd. Hvers vegna í ósköpunum þora menn ekki að horfast í augu við sjálfa sig og sína stefnu? Það er þetta sem þjóðinni var boðað og nú höfum við frumvarp sem skapar stjórnvöldum tækið. Ef við skoðum frumvarpið og þá möguleika sem hæstv. einkavæðingarmálaráðherra fær í hendur þá er kveðið á um það í 40. gr. frumvarpsins að honum eru færð talsverð völd um alla stefnumótun og er þar aftur vísað í 1. gr. um hver þessi áhrif eru. Hér segir, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra markar stefnu innan ramma laga þessara, laga um heilbrigðisþjónustu og annarra laga.“

Hann markar stefnuna vissulega innan þessa lagaramma sem er þó svo víður að hann býður upp á þessa möguleika og er stjórntæki til einkavæðingar að mati þess prófessors við Háskóla Íslands sem gerst þekkir til þessara mála.

Hæstv. forseti. Það segir líka í greinargerð með þessu frumvarpi að byggt sé á reynslu sérstaklega tveggja þjóða, Svía og Breta. Ég spurði hv. formann heilbrigðisnefndar, Ástu Möller, að því fyrr í dag á hvaða gögn nefndin og ráðuneytið og stjórnarmeirihlutinn hefði reitt sig sérstaklega þegar Bretland var annars vegar. Ég fékk þau svör að þar væri fyrst og fremst um að ræða ritgerð sem starfsmaður heilbrigðisráðuneytisins hefði skrifað og með fullri virðingu fyrir þeim starfsmanni hlýddi ég á rökræður viðkomandi starfsmanns og prófessors Allyson Pollock á fundi sem haldinn var sameiginlega af BSRB og Háskólanum í Bifröst sl. vor þar sem rökrætt var um afleiðingar á kerfisbreytingunum í Bretlandi. Halda menn að þar sé saman að jafna reynslu og þekkingu aðila sem hefur komið á tiltölulega skömmum tíma að rannsókn á þessu máli og svo hins vegar manneskju sem veitt hefur forstöðu stofnunum, rannsóknarstofnunum bæði í London, University College London og núna í Edinborg, um áratugaskeið, einstaklingi sem kallaður er til af BBC og öðrum fjölmiðlum í Bretlandi og reyndar fjölmiðlum um heiminn allan til að sækja þekkingu um þessi mál? Þessi aðili hefur kynnt sér sérstaklega þær lagabreytingar sem hér eru til umræðu og hún varar við þeim. Hún segir að sporin frá sínu heimalandi hræði. Þar hafi það gerst að kerfisbreytingarnar hafi verið teknar í smáum skrefum, einar 30 lagabreytingar á um 20 árum. En þær eigi sér grundvöll í einni lagasetningu, frá 1991, og það er sú lagasetning sem er áþekk því sem við erum að ræða hér. Það er grundvöllurinn, það er tækið sem prófessor Rúnar Vilhjálmsson vitnar í í sinni umsögn. Það er þetta sem gerir þetta mál svo alvarlegt og það sem er alvarlegast er að margir hverjir í stjórnarmeirihlutanum nenna ekki að setja sig inn í þessi mál og koma til með að greiða atkvæði um málið nánast með bundið fyrir augun. Það eru örfáir einstaklingar sem hafa sýnt einhverja tilburði til að setja sig inn í þetta grundvallarmál sem kemur til með að hafa áhrif á heilbrigðiskerfi okkar og hvernig það þróast um ókominn tíma.

Síðan er sagt, réttilega, að okkur hafi borist margar jákvæðar umsagnir. Í þessum umsögnum kemur t.d. fram og ég hef orðið var við það líka, ég hef heimsótt fjölmargar stofnanir, von um að kerfisbreytingunum fylgi meira fjármagn. En kemur meira fjármagn til með að fylgja þessum lagabreytingum? Ég hef ekki heyrt orð um það. Ég hef ekki heyrt eitt einasta orð um það. Ég hélt að til stæði að reyna að ná hagkvæmari samningum fyrir skattborgarann. Það hefur verið látið í veðri vaka. Þegar varaformaður Samfylkingarinnar talaði áðan þá talaði hann um útboð með velþóknun og að það ætti að taka útboðin ef þau væru hagkvæmari, ódýrari. Um það snerist málið og ég verð sannast sagna að furða mig á því að Samfylkingin sem kallar sig jafnaðarmannaflokk Íslands skuli ganga til þessara verka sem þjónar íhaldsins og frjálshyggjuaflanna í Sjálfstæðisflokknum eins og þessir þingmenn gera og koma sennilega til með að greiða allir atkvæði með þessu á morgun. Það er dapurleg tilhugsun.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði í umræðunni og vitnaði í lagagreinar þar sem segir að það sé ekki heimilt að auka gjaldtöku. Það er ekki heimilt að auka gjaldtöku, sagði hann. En ég segi: Það er ekki bannað með lögum að breyta lögum. Hér erum við komin með grundvöllinn, við erum komin með víðtækt reglugerðarvald ráðherrans og við erum líka með hv. þingmann, þann sama og ég vitnaði til og er varaformaður Samfylkingarinnar, jafnaðarmannaflokks Íslands, sem er að mæla með því að við heimilum auglýsingar í heilbrigðiskerfinu. Ég á sæti í nefnd undir forsæti hv. þm. Péturs H. Blöndals sem hefur sagt í þeirri nefnd að hann vilji heimila slíkar auglýsingar í gervöllu heilbrigðiskerfinu, hann hefur sagt það. Og þegar spurt er: Á hvaða grunni yrði það þá gert? Hver yrði grunnurinn? Það yrði lægsta verðið sem miðað er við og síðan yrði heimilað að auglýsa á grundvelli verðlags. En Samfylkingin, vegna þess að það stendur í þessum lögum að það eigi ekki að auka kostnaðarhlutdeild sjúklinga, ætlar að samþykkja lagabreytingar sem veita einkavæðingaröflunum í Sjálfstæðisflokknum, frjálshyggjupeningaöflunum í Sjálfstæðisflokknum, heimild til að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið.

Hvað er að gerast núna? Eru menn blindir? Sjá menn ekki hvað er að gerast uppi á heilsuverndarstöð, Heilsuverndarstöðinni ehf.? Sjá menn ekki hvað er að gerast? Það er byrjað að bjóða vildarsamninga fyrir kúnna bankanna, 20% lægri „díl“, ef þeir eru með gullkort upp á vasann. Sjá menn ekki hvað er að gerast? Það er byrjað að hygla einkavinunum í kerfinu. Og ég segi það og endurtek: Það á að rannsaka öll tengsl sem liggja á milli þingsins og stjórnmálanna hvort sem er á Alþingi, borginni, í bæjarfélögum við þau fyrirtæki sem hér eiga í hlut. Ég hef orðið var við það þegar maður hreyfir þessu að talað er um dylgjur, jafnvel rógburð …(ÁMöl: Það er slúður.) Það er slúður, segir hv. þm. Ásta Möller. Slúður og dylgjur eru það þegar staðhæft er eitthvað sem á sér ekki stoð í veruleikanum. Það er ein leið til að leysa úr því. En ég segi: allar upplýsingar upp á borðið með tilheyrandi dagsetningum, tilheyrandi hagsmunatengslum, fáum alla þessa hluti upp á borðið. Hvað er það sem dvelur orminn langa? Hvers vegna neitar Sjálfstæðisflokkurinn Alþingi um að fá settar reglur og lög um fjárhagsleg hagsmunatengsl? Hvers vegna setur Samfylkingin ekki sjálfkrafa af fúsum og frjálsum vilja fram slíkar upplýsingar? Hvers vegna skýtur hún sér á bak við þessa tregðu Sjálfstæðisflokksins sem neitar okkur um lagasetningu af þessu tagi?

Hæstv. forseti. Við erum að ræða grafalvarleg mál. Við erum að ræða lagafrumvarp sem opnar fyrir einkavæðingu á íslenska heilbrigðiskerfinu og ég ætla að vona að þegar við göngum til atkvæðagreiðslu á morgun þá geri menn það ekki með bundið fyrir augun.