135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:02]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála mörgu af því sem kom fram í máli hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur. Það slær mig samt sem áður að ég greini miklar mótsagnir í þessum málflutningi því að í upphafi ræðu sinnar sagði hv. þingmaður að með þessu frumvarpi væri ekki verið að stuðla að meiri einkavæðingu, að ekki væri á neinn hátt verið að ýta undir einkavæðingu. Hún eyddi síðan ræðutíma sínum í það að útskýra fyrir þingheimi að einkavæðingin væri alls ekki svo slæm og menn ættu ekki að óttast einkaframtakið innan heilbrigðisþjónustunnar.

Í þessu er nokkur mótsögn og ég geri mér alveg grein fyrir því að það sem hér er að gerast er að einhverju leyti — sem kemur ekkert á óvart — svolítið þykkur grautur fyrir hv. þingmenn Samfylkingarinnar.