135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[18:35]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil fyrst aðeins í andsvari við ágæta ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar víkja að þessu tvennu, annars vegar einkavæðingunni og hins vegar markaðsvæðingunni.

Ég tel raunar að í heilbrigðiskerfinu sé það síðarnefnda, þ.e. markaðsvæðingin — sú hugsun, sem er grunnurinn að lagafrumvarpinu, að hægt sé að skapa eitthvað gott með því að búa til markað, m.a.s. þar sem hlutunum er svo vitleysislega fyrirkomið að markaðsaðilarnir beggja megin eru undir sömu kennitölu, þ.e. þeir eru báðir ríkissjóður Íslands. En samt á að reyna að nota lögmál markaðsvæðingarinnar. Trúin er orðin svo blind. Þetta er það versta í frumvarpinu.

Hitt aftur á móti, hvort við bjóðum út einstaka verkþætti, ég held að það sé ekki það alvarlegasta. Það er markaðsvæðingin og verðlagningin á heilsu okkar. Setja á verðmiða á hvern einstakling og það orkar tvímælis, ég hygg að það sé að nokkru leyti úrelt.

Þá kem ég að aðalspurningu hv. þingmanns, hvort slíkt endurmat sé hafið innan Framsóknarflokksins. Já, ég get staðfest það að margir framsóknarmenn hafa rætt um að full ástæða sé til að skoða þessa hluti. Og það sem meira er, ég held að endurmat sem þetta sé hafið alls staðar í hinum vestræna heimi. Ég held að sú efnahagskreppa sem nú gengur yfir kalli á slíkt endurmat. Ég er ekki að flytja nein stórtíðindi, þetta heyrum við og sjáum í heimspressunni alls staðar. Við sjáum meira að segja merki um þetta þegar við lesum jafn harðsvíruð blöð og Economist, það góða blað, að menn eru farnir að sjá að blind markaðshyggja (Forseti hringir.) hefur runnið sitt skeið á enda.