135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:39]
Hlusta

Frsm. meiri hluta heilbrn. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bankakerfið var einkavætt. (ÁI: Einkavinavætt, já.) Skipaútgerð ríkisins var einkavædd. Fjarskiptin, Síminn var einkavæddur, prentsmiðja og Síldarverksmiðjur ríkisins. Ég gæti nefnt ótal mörg dæmi um einkavædd verkefni þar sem verkefnin — (Gripið fram í.) já, fjármögnun og rekstur voru flutt frá ríki yfir til einkaaðila. (Gripið fram í: Heilbrigðis…) Við erum ekki að tala um það í heilbrigðisþjónustunni. Við erum að tala um að heilbrigðisþjónustan verði hér eftir sem áður félagsleg heilbrigðisþjónusta, fjármögnuð að mestu af hinu opinbera og að miklu minna leyti, 15–18%, úr vasa einstaklinga eins og verið hefur hingað til á síðustu árum. Það er ekki einkavæðing í mínum huga en ég veit að svo er í huga hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Þó hefur þingmaðurinn gert þann greinarmun að einkavæðing geti fallið bæði undir skilgreininguna „einkavæðingu“ í mínum skilningi og „einkavæðingu“ þar sem ég tala um einkarekstur. (Gripið fram í.) Já, ég held að við skiljum alveg hvor aðra í þessum efnum og óþarfi að þvæla það frekar.

Hv. þingmaður hefur reyndar lýst því yfir í dag einkarekstur í ákveðnu formi geti hugnast Vinstri grænum, (Gripið fram í: Já.) en skilin skil ég ekki. Ég átta mig ekki á því hvar mörkin liggja. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þingmann: Var það Grund? (Gripið fram í.) Var Grund sem sagt alveg ótæk þegar hún gerði samkomulag um Landakot en er allt í lagi á meðan hún heldur utan um öldrunarstofnunina Grund? Ég skil þetta ekki.