135. löggjafarþing — 119. fundur,  9. sept. 2008.

sjúkratryggingar.

613. mál
[22:50]
Hlusta

Frsm. 1. minni hluta heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram um frumvarp um sjúkratryggingar sem í raun ætti að heita um sjúkratryggingar og sjúkratryggingastofnun eða innkaupastofnun heilbrigðisþjónustu því þetta er hvort tveggja, þá hafa ýmis hugtök verið rædd og yfirfarin. Hugtakið einkavæðing hefur verið rætt sérstaklega, hin viðurkennda skilgreining á því, þ.e. að það sé yfirhugtak eða skilningur einstakra þingmanna á því.

Annað orð hefur komið hér fram sem er nútímavæðing. Það á að nútímavæða heilbrigðisþjónustuna. Það á að nútímavæða alla opinbera þjónustu og það á að nútímavæða samfélagið. Það eru alltaf í gangi straumar, alþjóðlegir straumar og stefnur sem ganga yfir heimsbyggðina og oft og tíðum eru það alþjóðlegar stofnanir eins og Alþjóðaviðskiptastofnunin eða WTO og OECD sem knýja þessar breytingar áfram. Alþjóðavæðingin er t.d. gott dæmi um slíka þróun þar sem ákveðnum hápunkti er náð í þeirri þróun þegar allir hagstæðu markaðirnir eru orðnir opnir en eins og merkin bera með sér núna þá er sú nútímavæðing sem hefur verið í gangi að hníga og gallar hennar orðnir svo augljósir að menn eru farnir að leita að nýjum kenningum, nýrri þróun, nýrri nútímavæðingu þar sem alþjóðavæðingin er að ganga sér til húðar. Hún gengur ekki upp. Hún gengur gegn sjálfbærri þróun á öllum sviðum og er orðin úrelt.

Það má segja að þær formbreytingar sem við stöndum frammi fyrir núna séu angar af þeim meiði. Sú þróun að búa til innri markaði hefur tíðkast í heilbrigðisþjónustunni í Evrópu og víðar, hugtökin að markaðsvæða, að hafa kaupendur og seljendur og setja verðmerkingar á þjónustuna, að koma á innra eftirliti, að koma á gæðaeftirliti og koma á eftirliti með þjónustunni. Mest af þessu er af hinu góða en það er erfitt að stíga þau skref að þetta þjóni í raun og veru þeim tilgangi að gera þjónustuna ódýrari en jafnframt betri og aðgengilegri. En það er eitt sem víst er og það er að stjórnunarkostnaðurinn hefur aukist og eftirlitskostnaðurinn með þessum kerfum öllum saman hefur blásið út eins og púkinn á fjósbitanum. Það er sammerkt með öllum þjóðum sem hafa gengið þennan veg.

Ég vil, hæstv. forseti, fá að leiðrétta innsláttarvillu í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta, þar sem við vísum til frumvarps, þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir þinginu, 3. mál á þskj. 3, þar sem við teljum að það eigi að fara í rannsókn á áhrifum þeirrar markaðsvæðingar sem hefur verið í opinberri þjónustu á mismunandi sviðum. Hér stendur að þetta þingskjal hafi ekki komist á dagskrá þingsins. Það er ekki rétt, það komst á dagskrá en það hefur ekki verið hér til afgreiðslu. Það situr enn í nefnd og er búið að gera það frá því í byrjun vetrar og það er það sem er ámælisvert og ég vil leiðrétta þetta. Það komst á dagskrá, var hér rætt en hefur ekki verið afgreitt. Það er miður því ef við hefðum haft þessa úttekt á áhrifum markaðsvæðingar á þeim opinberu fyrirtækjum sem eru hér í grunnþjónustunni þá værum við betur undirbúin að fara í þær umræður sem nú fara fram, við gætum horft til baka og séð hvaða áhrif þetta hefur haft og það gæti hjálpað okkur til þess að líta inn í framtíðina, hvaða áhrif slíkar breytingar geti haft í heilbrigðisþjónustunni verði þessi leið farin.

En framtíðin er á þessu sviði ein pólitík og fer mikið eftir samstarfi þeirra tveggja stjórnarflokka sem nú eru við völd og hvernig útfærsla á hugtökum og innleiðingu á þessum formbreytingum verður. En þegar hv. formaður heilbrigðisnefndar sem hefur stöðu innan síns flokks lítur svo á að það skipti engu máli hvaða rekstrarform séu fyrir hendi þá sér maður ekki alveg fyrir hvaða rekstrarform verða fyrir valinu ef það á að breyta.

Í frumvarpinu er kafli um gjöld og gjaldtöku en það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að heilsugæsluþjónustan skuli vera gjaldfrjáls og greiðsluþátttaka sjúklinga í heilbrigðisþjónustu takmörkuð verulega frá því sem nú er. Við viljum sannarlega draga úr gjaldtökunni. Hún kemur þeim verst sem mest þurfa að nota þjónustuna og heilsufar þeirra sem eru fátækir og verr settir er lakara og þar af leiðandi koma þjónustugjöld verr niður á þeim.

Það eru ýmis merki á lofti sem sýna að greiðsluþátttaka er orðin of mikil fyrir ákveðna þjóðfélagshópa og þó svo að hægt sé að taka meðalgreiðsluþátttöku þjóðarinnar í heilbrigðiskostnaði, hvort hann hefur lækkað eða minnkað, þá er alveg augljóst að hann vegur orðið þyngra hjá þeim sem verst eru settir. Þetta er m.a. farið að koma niður á tannheilsu þjóðarinnar og annarri þeirri þjónustu þar sem sjúklingar taka meiri þátt í greiðslum, t.d. greiðslum til sálfræðinga og geðlækna, sérstaklega hefur borið á þessu hjá sálfræðingum og þeim sérfræðingum sem hafa staðið fyrir utan samninga. En það er ljóst að þetta er farið að koma niður á heilsu þjóðarinnar og það hefur orðið grundvallarbreyting frá því sem var og fyrri rannsóknir sem hafa verið gerðar hafa ekki bent til mismunandi aðgengis fólks eftir efnahag.

Ég vil, hæstv. forseti, fara hér nokkrum orðum um breytingartillögurnar og nota þær mínútur sem ég á eftir til þess. Í IV. kafla frumvarpsins sem fjallar um samninga um heilbrigðisþjónustu ítrekar minni hlutinn að hugmyndafræðin um kaup og sölu á sviði heilbrigðismála sé varhugaverð. Ekki er eðlilegt að setja heilbrigði manna undir skilmála um arðsemi þar sem ríkari áhersla er lögð á hagkvæmni og hagnað en réttindi og velferð einstaklinganna sem í hlut eiga.

Það eru tvær meginbreytingar sem við leggjum sérstaklega áherslu á. Við vörum alvarlega við þeim ásetningi stjórnvalda sem er að finna í 39. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að ekki megi gera samninga við stéttarfélög eða fagfélög á sviði heilbrigðisþjónustu eins og tíðkast hefur um árabil, það er algjört bann við því. Við viljum hafa þetta opið. Það geta verið þær aðstæður þar sem þetta form er heppilegast fyrir alla aðila og við teljum að það eigi að vera áfram opið. Annars er í raun og veru verið að brjóta á stéttarfélögum, að geta ekki samið fyrir sína félaga.

En við leggjum líka til og leggjum á það áherslu eins og við gerðum við afgreiðslu um bandorminn svokallaða, að 42. gr. frumvarpsins verði felld úr gildi og þannig afnumin útboðsheimild sjúkratryggingastofnunar. Útboð á heilbrigðisþjónustu er mjög viðkvæmt. Það er varasamt og við búum við þær aðstæður að samkeppnisumhverfið er takmarkað. Og ef við erum að tala um virka samkeppni og markað þá er það helst hér á höfuðborgarsvæðinu og í raun og veru væri verið að búa til eða byggja upp mismunandi þjónustu fyrir höfuðborg og landsbyggð. Við gætum verið að auka þar enn frekar misræmið. Við leggjum því þunga áherslu á þetta.

Við áréttum einnig og teljum það ámælisvert að ekki skuli vera gerðar kröfur til reynslu eða hæfi stjórnarmanna sjúkratryggingastofnunar og að ekki sé gerð krafa um að forstjóri stofnunarinnar búi yfir fagþekkingu á sviði heilbrigðismála. Við leggjum til breytingu á því ákvæði og að það verði gert krafa um fagþekkingu forstjóra sjúkratryggingastofnunar.

Við leggjum líka áherslu á það, og viljum taka það eftir Svíum, að gera tannlækningar barna og ungmenna upp að 20 ára aldri gjaldfrjálsar og eins aldraðra og öryrkja sem njóta tekjutryggingar. Við leggjum það til að í kafla 20. gr. frumvarpsins verði tekið út „nauðsynlegra tannlækninga“ því það á að meta það í reglugerð, frekar að móta þar skýrari reglur um gjaldtökuna. En tannlækningar eru tannlækningar og við teljum að þær eigi að vera gjaldfrjálsar.

Við 28. gr. frumvarpsins gerum við tillögur um viðbætur þar sem tryggt er að sjúkratryggingar greiði fargjald beggja foreldra veiks barns sem er flutt með sjúkraflutningi á sjúkrahús og við teljum að það sé full ástæða til þess að hafa þessa heimild beggja foreldra bundna í lögum við slíkar aðstæður.

Við gerum einnig breytingartillögu á 2. tölul. 29. gr. Þar gerum við tillögu um að sjúkratryggðir greiði ekki beint úr buddunni fyrir rannsóknir sem er undanfari aðgerðar eða meðferðar. En eins og flestir vita þá eru aðgerðir eða meðferðir inni á sjúkrahúsum sem ekki eru bráðaaðgerðir stundaðar með þeim hætti í dag að fólk er látið koma deginum áður í þær rannsóknir sem eru undanfari aðgerðar eða meðferðar og greiða þá göngudeildargjald. Þetta getur tekið þungt í og við teljum í raun og veru að þetta flokkist sem aðgerð og hluti af innlögn á sjúkrahús og sparnaðurinn sem stofnunin og ríkissjóður hefur með þessari tilhögun, þ.e. að beina fólki fyrst á göngudeild, kemur fram í því að það þarf ekki leggja sjúklinga inn.

Við tökum einnig undir kröfur og ábendingar ljósmæðrafélagsins um að ekki verði heimilt að taka gjald fyrir aðstoð ljósmóður við fæðingu og sængurlegu í heimahúsum. Þó svo að samningar við ljósmæður séu á þennan veg þá viljum við tryggja þetta í frumvarpinu þannig að sængurlega sé innifalin.

Við viljum benda á efnislega þýðingu 12. tölul. 59. gr. en hún er sú að starfsmenn heilbrigðisþjónustu sem flyst frá ríkinu með samningum skv. IV. kafla laganna teljast áfram vera ríkisstarfsmenn þrátt fyrir að vinnuframlag þeirra sé innt af hendi fyrir sveitarfélagið.

Og við bendum einnig á að með aukinni einkavæðingu opinberrar þjónustu þá verður að skilgreina stöðu og réttindi starfsmanna þeirra fyrirtækja sem verða einkavæðingu að bráð og rétt almennings til að upplýsa um það hvernig með eignir hans verður farið.

Hæstv. forseti. Við teljum loks í (Forseti hringir.) minni hluta nefndarinnar að gildistaka frumvarpsins sem á að vera 1. október næstkomandi sé vanhugsuð enda (Forseti hringir.) liggja fyrir ýmsar breytingar í heilbrigðiskerfinu sem eiga að taka gildi innan tíðar. Við teljum því að það hefði verið ráðlegra að fresta gildistökunni að minnsta kosti fram að næstu áramótum.