135. löggjafarþing — 120. fundur,  10. sept. 2008.

störf þingsins.

[14:03]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hafi stjórnarflokkarnir talað í kross fram að þessu þá held ég að þeir hafi aldrei talað jafnmikið í kross og í þessari umræðu. Þvílíkt og annað eins að upplifa þetta, að samstaða skuli ekki vera meiri í ríkisstjórninni en raun ber vitni meðal stjórnarflokkanna eins og kom fram í þessari umræðu, það náttúrlega segir sína sögu. (PHB: Þetta eru tveir flokkar.) Það segir okkur að þessir flokkar geta ekki tekið á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Svona umræða eins og hér hefur farið fram skilar akkúrat engu og ræða eins og síðari ræða hv. formanns efnahags- og skattanefndar var þannig að hún á ekki rétt á sér. Það verður að vera hægt að tala um hlutina á annan hátt en þann sem hv. formaður efnahags- og skattanefndar gerði í lok umræðunnar. Miðað við hvernig hv. formaður nefndarinnar talaði og meðan stjórnarflokkarnir halda því fram að vandinn sé allur kominn erlendis frá þá vil ég halda því fram að við náum engum árangri, þá verður þetta bara svona.

Vissulega er hluti af vandanum sá að það er fjármálakreppa í heiminum. En hvers vegna eru þá þau lönd sem fyrst og fremst byggja á fjármálastarfsemi eins og Sviss með fínan hagvöxt, ágætishagvöxt í ár og á næsta ári? Þetta er vandamál sem hefur verið skapað og búið til hérna heima að verulegu leyti og ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir verða að ræða það. Það var minnst á vandamál í Danmörku. Vissulega fór þar banki á hausinn sem danski seðlabankinn þurfti að yfirtaka en Danir eru líka farnir að vinna í málinu en hér er ekkert verið að gera. Ég get tekið undir það með hv. formanni fjárlaganefndar að auðvitað þarf líka að ræða málið, hvernig á að leysa það til lengri tíma og þar með kemur umræðan um sameiginlega mynt. Þetta er eitt af því sem stjórnarflokkarnir munu ekki taka á og landsmenn þurfa að bíða í þrjú ár eftir því að eitthvað geti hugsanlega gerst í þeim málum hér á Íslandi.