135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

námslán námsmanna erlendis.

658. mál
[14:59]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem og hv. þm. Magnúsi Stefánssyni fyrir að taka þátt í þessari mikilvægu umræðu. Staðreyndin er sú að danska krónan er 30–40% dýrari í dag en hún var fyrir ári síðan. Það er því 30–40% dýrara fyrir námsmenn á erlendri grundu að fleyta sér á íslensku krónunni í dag en fyrir ári síðan og það er engin smáskerðing fyrir námsmenn og það olli mér vægast sagt miklum vonbrigðum að hæstv. ráðherra skyldi ekki einu sinni gefa ádrátt um að það yrði að einhverju leyti tekið tillit til erfiðra aðstæðna.

Ég fór líka yfir það að námsmenn erlendis þurfa að greiða yfirdráttarvexti þangað til þeir fá lánið greitt út, 20–25% vexti í mörgum tilvikum. Ég tel því einboðið í ljósi erfiðrar stöðu að ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra kanni leiðir til þess að bæta stöðu þeirra sem eru við nám erlendis því við viljum að Íslendingar sæki sér nám, sæki sér þekkingu á erlenda grund þannig að þegar þeir komi aftur til baka verði þeir landi og þjóð til heilla, rétt eins og þeir Íslendingar sem hafa verið við nám á erlendri grundu hafa gert.

Svo tek ég undir með hæstv. ráðherra um mikilvægi lánasjóðsins og við höfum staðið mjög vel við bakið á Lánasjóði íslenskra námsmanna. Við höfum lækkað endurgreiðslubyrðina og síðasta ríkisstjórn gerði marga mjög góða hluti til hagsbóta fyrir námsmenn. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort þessi nýja ríkisstjórn hyggist ekki halda áfram á þeirri braut að bæta kjör námsmanna erlendis því kjör þeirra eru svo sannarlega ekki öfundsverð.

Hæstv. forseti. Ég hvet ráðherrann til þess að beita sér í þessu máli, a.m.k. tímabundið þannig að það verði komið til móts við kjör þeirra sem sækja nám á erlendri grundu.