135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

skuld ríkisins við verktakafyrirtækið Impregilo.

655. mál
[15:25]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Það er auðvitað of langt mál fyrir mig að rekja öll málsatriði sem upp eru höfð í þessu máli fyrir dómstólunum en þar höfum við skilað greinargerð. Það eru fleiri atriði en hv. þingmaður nefndi, ekki bara það að jafnvel samkvæmt dómi Hæstaréttar sé Impregilo ábyrgt fyrir hluta af þessu, heldur jafnframt það hversu óljós endurgreiðslukrafan er og síðan einnig það að þrátt fyrir þetta geti stefnandinn borið ábyrgð sem vinnuveitandi skv. 3. mgr. 116. gr. tekjuskattslaganna. Þetta eru atriði sem þarf að meta í þessu tilfelli. Eins og ég sagði áðan getur verið að niðurstaðan af umræddri kröfu Impregilo sé sú að skuldin sé óveruleg og jafnvel lítil sem engin og þá hefðum við vissulega rasað um ráð fram ef við hefðum gengist við stórum upphæðum og jafnvel greitt þær. Ég er hræddur um að hv. þingmaður mundi gagnrýna fjármálaráðherrann ef hann stæði almennt þannig að málum.

Þetta mál er rekið af hálfu ríkisins samkvæmt ráðleggingum þeirra lögmanna sem þar starfa og því hvernig þeir meta þessa niðurstöðu. Við teljum að ríkið hafi góða stöðu í þessu en það verður auðvitað endanlega dómstóla að úrskurða um það og ríkisins á endanum að hlíta þeim úrskurði.