135. löggjafarþing — 121. fundur,  10. sept. 2008.

staða landbúnaðarins og matvælaframleiðslu.

[15:56]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Staða landbúnaðarins er að vonum. Um árabil höfum við burðast með landbúnaðarkerfi sem er fokdýrt, skilar sauðfjárbændum lélegu kaupi en okkur neytendum rándýrri matvöru. Á þessu er enginn að græða. Við eigum að nota þann vanda sem nú steðjar að sem tækifæri til að skera upp þetta lélega kerfi (Gripið fram í.)með það að markmiði að auka þar samkeppni og með það að markmiði að tryggja að styrkirnir og niðurgreiðslurnar renni til þeirra sem við raunverulega viljum að njóti þeirra, þ.e. til bændanna sjálfra, en hverfi ekki í milliliðahítina eða í verslun. (Gripið fram í.)

Við gátum flotið svona sofandi meðan hér var falskur kaupmáttur vegna of hárrar gengisskráningar meðan allar aðstæður í heiminum voru sérstaklega góðar með óvenjulega lágum fjármagnskostnaði, lágu olíuverði, lágu áburðarverði og með þeirri miklu vernd í tollum og innflutningshöftum sem íslenskur landbúnaður nýtur. Þessara þátta allra saman nýtur nú ekki lengur við og það mun ekki breytast á allra næstu mánuðum. Ríkissjóður mun ekki geta axlað þau viðfangsefni einn og sjálfur sem við er að fást í íslenskum landbúnaði. Þess vegna hygg ég að sú staða sem við erum nú komin í kalli einfaldlega á það og geri það að nauðsyn að við endurskoðum þær aðferðir sem við höfum haft við þetta, ekki með það að markmiði að draga úr stuðningi við íslenskan landbúnaði, heldur með það að markmiði að sá stuðningur gagnist (Forseti hringir.) neytendunum og bændunum en tapist ekki allur í milliliðahítinni.