135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[13:30]
Hlusta

Samúel Örn Erlingsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka umhverfisráðherra fyrir þessa skýrslu um umhverfismál, sem mér þykir gefa ágæta heildarmynd af málaflokknum. Menn greinir á um hvað vanti en mér finnst margt af ágætu efni og spennandi hlutum í skýrslunni sem ekki hefur mikið verið minnst á í þessari umræðu og verður sjálfsagt ekki.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að umhverfisráðuneytið sé orðið 18 ára. Umfangið á verkefnum þess ráðuneytis er orðið svo gríðarlegt að það hefði verið gaman að segja það þeim sem héldu á sínum tíma, og héldu því jafnvel fram, að umhverfisráðuneytið væri haganlega gert, lítið verkefni fyrir mann sem vantaði ráðherrastól. Nú er stóra spurningin: Hvar hefjast þessi mál og hvar enda þau? Það gerir vanda umhverfisráðherrans oft heilmikinn því að mörg spennandi mál sem snerta umhverfismál heyra beinlínis undir önnur ráðuneyti eða tengjast málum sem heyra þar undir og því kannski erfitt um vik að beita sér.

Í kafla í þessari skýrslu, um verkefni á sviði umhverfismála, er rætt um náttúruvernd og það er jú hið eilífa umræðuefni þessara daga og missira um umhverfismál. Þar er greint frá því að ríkisstjórnin hafi ráðist í gerð rammaáætlunar og það er jú tæki til að skapa sátt á milli verndar og nýtingar til orkuvinnslu í framtíð. Það eru reyndar til fleiri nýtingarform en orkuvinnsla sem takast á við þessa vernd, eins og t.d. ferðamennska, og nauðsynlegt að farið verði í svipað átak gagnvart þeirri nýtingu landsins — að mótuð verði landnýtingarstefna fyrir ferðamennsku og að þau svæði sem ferðaþjónustan getur nýtt sér til framtíðar verði skilgreind. Slík stefna er á margan hátt forsenda fjárfestinga, markaðssetningar og uppbyggingar á innviðum í ferðaþjónustu.

Af þeim fréttum sem ég hef haft af vinnu þessarar rammaáætlunar má marka að hún sé bara rétt að fara af stað og kannski hefur tímanum ekki verið nógu vel varið í þeim ranni. Kallað er eftir hugmyndum frá orkufyrirtækjum þessa daga á haustmánuðum 2008 og er ætlunin að skila af sér rammaáætlun eftir eitt ár. Það verður að teljast kraftaverk, held ég, ef niðurstaða vinnu sem verður unnin með þeim hraði verður svo óumdeild að hún geti orðið grundvöllur að þeirri sátt sem menn tala um. Það skal nefnilega vanda það sem lengi skal standa og ég held að ég leyfi mér að skora á ráðherra að fresta lokum þessa verkefnis um eitt ár eða þar um bil.

Ráðherra ræðir um að fá þeirra svæða sem eru á náttúruverndaráætlun hafi hlotið verndun og segir að fara þurfi yfir verklagið. Ég tel því rétt að spyrja, þrátt fyrir jákvæð orð hér áðan hjá ráðherranum, hvort hún stefni að því að taka skipulagsvaldið frekar af sveitarfélögum í þessu sambandi.

Komum þá að Vatnajökulsþjóðgarði sem er frábært verkefni. Lögin um hann voru jú samþykkt á vorþingi 2007. Þórunn tók þar við kefli eftir glæsilegt boðhlaup Sivjar, Sigríðar Önnu og Jónínu og átti fínan endasprett en fataðist aðeins í lokin þegar hún staðsetti forstöðumann þjóðgarðsins í Reykjavík en ekki úti á landi. Það stemmir ekki alveg við kosningaloforð um störf án staðsetningar en hins vegar dvel ég ekki lengur við það heldur fagna hugmyndinni um vini Vatnajökuls, hollvinasamtök þjóðgarðsins, þar sem fyrirtæki og einstaklingar koma þjóðgarðinum til stuðnings. Ég vona að staðið verði við það loforð að hollvinasamtökin fái að sjá það fé sem þau koma með fara inn í reksturinn án þess að skerða framlag ríkisins í þessu efni.

Eitt af því sem rætt er um er akstur utan vega. Það er verkefni sem Siv Friðleifsdóttir setti af stað á sínum tíma og þykir sumum undarlegt hve mikið það verkefni hefur dregist. Á meðan er farið um ýmsa slóða á landinu og nýir búnir til og það veldur þeim áhyggjum sem vilja geta ekið um landið og farið um það á óræðum slóðum án þess að níðast á því.

Varðandi mengun hafsins er töluvert rætt um siglingar í skýrslunni og þar er rætt um vákort sem er afar mikilvirkt tæki og kostar ekki mikla fjármuni, það hefur sannað sig t.d. við strandið á Wilson Muuga. Talað er um kortlagningar og ekki veitir af að kortleggja Breiðafjörð og Vestfirði þar sem siglingaleiðirnar frá Rússlandi til Ameríku liggja, en þá er rétt að spyrja: Hvað líður uppsetningu radarkerfis sem mundi gera vaktstöð siglinga kleift að fylgjast með siglingum skipa og grípa inn í um leið og skip eru meðvitað eða ómeðvitað komin út af siglingaleið með slíka farma. Um þetta liggja fyrir hugmyndir Landhelgisgæslu.

Þá er kannski hægt að spyrja áfram um mál sem eru á kantinum og tengjast umhverfisnefnd: Er nóg að eiga eitt varðskip sem hefur einhvern almennilegan togkraft? Þyrftu þau ekki að vera tvö eða þrjú eða jafnvel fleiri?

Hér hefur verið minnst á búsvæði á hafsbotni og þeirri könnun hefur kannski ekki miðað hratt en velta má fyrir sér: Verður fé til þess á komandi fjárlögum?

Loftslagsmál eru hins vegar þau mál sem eru langflóknust og mikilvægust í þessu og enginn getur skorast undan því að taka þátt í þeirri baráttu. Þar hlýtur helsta alþjóðlega áherslumálið að vera að koma í veg fyrir þennan kolefnisleka sem felst í undanþágu þróunarríkja. Þannig hafa hlutirnir færst til þeirra í staðinn fyrir að menn kannski taki til eins og gera þyrfti.

Víða má koma að í þessum efnum og t.d. má velta fyrir sér: Er ekki rétt að fara í frekari viðræður við stóriðjuna um hvaða möguleika hún á í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og þá sérstaklega að ýta undir frekari þróun og nýja tækni, eins og t.d. í álbræðslu með keramikskautum þar sem í stað koltvísýrings yrði framleitt súrefni? Það mætti hugsa sér að þeim aðilum sem tækju þátt í slíku mætti umbuna í formi hlutdeildar í verðmæti losunarkvóta en menn geta náttúrlega rætt það. Stóra spurningin í því hlýtur að vera, eins og hér hefur verið margnefnt, hver samningsmarkmið Íslendinga séu á Kaupmannahafnarfundinum og hvort ætlunin sé að glutra niður íslenska ákvæðinu sem er margra milljarða virði og umhverfinu til mikils gagns.

Við getum líka litið okkur nær. Oft þegar talað er um umhverfismál er horft langt fram í tímann, það þarf að gera svo mikið og allt í einu og það þarf að koma fram eftir nokkur ár. Það er þess vegna hægt að takast á við vandamál samtímans og miklu hraðar. Við getum ímyndað okkur t.d. útblástur bifreiða. Eitt af þeim tækjum sem hægt er að nota til að stýra því hvers konar bifreiðar eru keyrðar, hvers konar eldsneyti er eytt er olíugjaldið, sem sett voru lög um hér í þessum sal fyrir fjórum árum. Þar eru beinlínis forsendur fyrir því að menn geti beitt olíugjaldinu til að hafa dísilolíu ódýrari en bensín og þá væri minna eldsneyti eytt. Menn geta svo rifist um það hvað mengar meira en ég held að menn séu samt sammála um að þó að hvort tveggja mengi þá mengi dísilolían minna.

Þar sem ný reglugerð er væntanleg um bifreiðar og sérstaklega tvíorkubifreiðar, og talað er um vetnisbíla og alls konar bíla, má velta því sér að ein tegundin sem varð afgangs, að því er ég best veit, í tollaívilnunum var sú gerð tvíorkubíla sem gengur fyrir blöndu af metanóli eða etanóli og bensíni, þar er bensín ekki nema 15%. Fyrirsjáanlegt er að etanól eða metanól, sem reyndar er farið að framleiða í tilraunaskyni hér á landi, geti orðið samkeppnishæft, sérstaklega ef menn fara að nota það og þá getum við framleitt það sjálf. Það er því mjög margt athyglisvert í þessum efnum.

Að lokum: Það brýnasta sem ég rak augun í í þessari skýrslu eru ferskvatnsmál, innleiðing vatnatilskipunar — ég held að við Íslendingar, með allt þetta vatn, áttum okkur ekki alltaf á því hvað það er mikilvægt og kannski ekki heldur á því hversu viðkvæmur vatnsbúskapurinn getur verið, það þarf svo lítið til. (Forseti hringir.) Íslenska vatnið er fjársjóður.

Að lokum vil ég óska umhverfisráðherra til hamingju með að hafa landgræðsluna nú á sinni könnu, því að frá því var greint fyrir nokkrum dögum (Forseti hringir.) að loksins græðum við meira en upp fýkur.