135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:01]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir skýrsluna sem sýnir í raun hversu yfirgripsmikill og veigamikill þáttur umhverfismálaflokkurinn er. Umhverfismál í mínum huga snúast fyrst og fremst um það að um leið og við fáum notið auðlinda jarðarinnar skilum við henni hreinni til kynslóðanna sem á eftir koma. Því er hugtakið um sjálfbæra þróun bæði skynsamlegt og æskilegt leiðarljós í umhverfismálum. Ljóst er að skilgreina þarf samt betur hvað átt er við með sjálfbærri þróun þegar við erum að nýta það hugtak og þá fyrst og fremst hvernig vinna má með hugtakið þvert á ráðuneytin. Við þurfum nefnilega að flétta saman þeim þremur þáttum sem sjálfbær þróun snýst um, þ.e. samfélagsþróun og uppbygging, atvinnu- og efnahagsmál og svo umhverfis- og náttúruvernd. Við þurfum að gera þetta í alþjóðlegu samhengi.

Eins og glöggt kemur fram í skýrslu hæstv. umhverfisráðherra þá eru umhverfismál alþjóðamál. Í auknum mæli erum við að vinna í að framkvæma EES-gerðir, alþjóðlegar skuldbindingar og í raun má líka segja að við sýnum frumkvæði á nokkrum sviðum og þá sérstaklega í sambandi við umhverfi hafsins.

Ég ætla að fjalla um loftslagsmál í alþjóðasamhengi og svo kaflana sem mér finnst vanta í skýrsluna. Ég ætla ekki að fara mikið út í skýrslu vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar en þar koma saman 2.500 færustu vísindamenn á þessu sviði og benda okkur á þá gífurlegu ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og við eigum að taka þessa ógn alvarlega. Í niðurstöðu þeirrar skýrslu sem nýlega hefur verið birt frá þessari vísindanefnd kemur fram í lokin að aðgerðir næstu tveggja til þriggja áratuga muni skipta sköpum til að draga úr nettólosun og að það muni skipta sköpum um árangur jarðarinnar í framtíðinni að við fylgjum eftir breytingum.

Mikilvægustu aðgerðirnar til að stemma stigu við aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu eru að minnka notkun jarðefnaeldsneytis. Þetta vitum við öll. Við eigum að draga úr koltvísýringslosun. Við þurfum að gera það með því að auka vægi endurnýjanlegra orkugjafa en á því sviði hefur Ísland algjöra sérstöðu meðal þjóða heims. Einnig er mikilvægt að fylgjast með rannsóknum á förgun kolefnis. Mér finnst þetta afar spennandi vísindarannsóknir, sem meðal annars Íslendingar taka þátt í. Ég vil einnig hvetja til orkusparnaðar í iðnaði, landbúnaði, samgöngum og víðar.

Sem Evrópuráðsþingmanni er mér ljóst að gífurleg gerjun á sér stað hjá öllum Evrópuþjóðunum og það er mikill þrýstingur að draga úr þessari losun koltvísýrings. Mikil umræða um þá orkugjafa einkennir í raun samkundur Evrópuþingsins þessa dagana. En það er tvennt sem kemur mér á óvart, í fyrsta lagi þessi gífurlega umræða um kjarnorkuver, að heyrst hefur að Bretar ætli að reisa fyrir 2030 tíu ný kjarnorkuver. Frakkar leggja höfuðáherslu á kjarnorkuver. Þetta er endurnýjanlega orkugjafalausnin sem er rædd töluvert mikið í Evrópuráðsþinginu og ég held að við eigum að gera okkur grein fyrir þessu.

Síðan er hitt að umræða um endurnýjanlega orkugjafa er þannig að hún er rædd án þess að það sé heildarkerfishugsun í því. Við erum að ræða, Evrópuþjóðirnar, alla vega á þessum vettvangi, svona í sílóum, eins og kannski má segja. Alþjóðlega verkefnið sem blasir við þjóðum heims er uppstokkun á orkukerfum heimsins, frá þeim kerfum, frá iðnbyltingunni, sem hvíla á notkun jarðefniseldsneyta yfir í hrein og endurnýjanleg orkukerfi. Þar kemur það sem mér finnst vanta í skýrsluna, þ.e. kaflann um sérstöðu Íslands í orkumálum. Það má kannski segja: Bíddu, af hverju á umhverfisráðherra að skrifa þann part í skýrslunni? Vitið þið það, það vantar þennan samhæfingarkafla um það hvernig við ætlum að vinna þvert á ráðuneytin. Mér finnst ekki að landsskipulagið sé umhverfismál eingöngu. Það er efnahags- og atvinnumál. Það er líka samfélags- og félagsmál. Við verðum að líta á það hvar sérstaðan okkar er og ég sakna þess að við ræðum það ekki meira. 80% orkugjafa okkar eru endurnýjanleg. Engin þjóð ýtir endurnýjanlega orkugjafa í hærra hlutfalli. Einungis 5% (Forseti hringir.) af orkunotkun OECD-þjóðanna eru endurnýjanleg. Nær 90% orkuviðskipta í heiminum eru með jarðefnaeldsneyti. Við eigum svo mörg sóknarfæri (Forseti hringir.) og við eigum að fara að gera okkur grein fyrir því hvaða stöðu Ísland getur skipað í (Forseti hringir.) alþjóðamyndinni.

Ég kláraði reyndar ekki allt sem ég ætlaði að segja. Það er svo margt sem ég á eftir að segja, t.d. um nýju þjóðirnar, Brasilíu, (Forseti hringir.) Indland, Kína, (Forseti hringir.) það er bara þriðjungur jarðarbúa sem ekki einu sinni kemst í rafmagn (Forseti hringir.) í dag. Hvar haldið þið að við verðum eftir nokkur ár ef við gerum ekki eitthvað af viti?