135. löggjafarþing — 122. fundur,  11. sept. 2008.

umhverfismál.

664. mál
[14:41]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins víkja að loftslagsmálunum í síðari ræðu minni. Þau eru orðin býsna afgerandi og einnig niðurstöður vísindamanna í þeim efnum. Er engin ástæða til annars en að taka fullt tillit til þess álits sem þau setja fram og vinna samkvæmt því. Menn mega hins vegar aldrei gleyma því að vísindi eru ekki líkindareikningur. Við megum ekki gleyma vísindamanninum sem á sínum tíma hélt því fram að jörðin snerist í kringum sólina og gekk þannig gegn ríkjandi viðhorfum og var knúinn til þess að afneita skoðunum sínum en reyndist svo hafa rétt fyrir sér. Við þurfum alltaf að vera vakandi fyrir efanum í þessum efnum, fylgjast með og hafa fyrir því að staðreyna hlutina áfram þó að við förum þá braut að fylgja þeim meginniðurstöðum sem liggja fyrir í þessum efnum þar til annað kemur í ljós.

Þær loftslagsbreytingar sem þarf að vinna gegn hafa ýmis áhrif, m.a. hér á landi. Þær hafa þau áhrif að jöklarnir munu bráðna og minnka. Það mun hafa þau áhrif að vatnsföllin minnka. Orkan í vatnsföllunum mun minnka. Og það hefur áhrif á mat okkar á því hvenær og hvort hagkvæmt er að virkja á tilteknum stað eða ekki.

Það þýðir líka að við þurfum að vera vakandi fyrir því að nýta þessa orku meðan hún er. Fyrst þróunin eins langt og við sjáum fram í tímann er sú að við getum vænst þess að jöklar landsins hverfi er ekkert óskynsamlegt að nýta orku vatnsfallanna á meðan hún er fyrir hendi Við skulum ekki missa sjónar á því í þessu máli.

Í öðru lagi vil ég víkja að málefnum hafsins á nýjan leik. Mörgu er ábótavant í veiðarfærastýringu og álagsstýringu á einstaka fiskstofna í hafinu. Eitt af því sem hefur valdið mönnum áhyggjum, og er að koma æ sterkara upp á yfirborðið, er hvernig veiðum er stýrt á einstaka stofna eins og þorskstofna þar sem mjög mikið er veitt af stórum fiski úr stofninum. Telja menn í vaxandi mæli líkur leiða til þess að það breyti erfðasamsetningu stofnsins og breyti stofninum sjálfum. Þetta er kallað erfðarek og var nýlega frétt um það í dagblöðum að Íslendingur hefði verið í framhaldsnámi og kynnt ritgerð sína um það efni. Þetta er að mínu viti málefni umhverfisins.

Í öðru lagi er það nýting fiskstofna. Það þarf ekki bara að koma í veg fyrir ofnýtingu þeirra. Það þarf líka að koma í veg fyrir vannýtingu þeirra. Ýmsir stofnar eins og hvalir eru vannýttir og þeir hafa áhrif á aðra stofna í hafinu og lífríkið þar. Er ástæða til að hafa áhyggjur af því, fylgjast með því og grípa inn í til þess að koma í veg fyrir óæskileg áhrif af vannýtingu einstakra stofna.

Loftslagsútblástur hér á landi er mikill frá fiskiskipaflotanum. Við eigum því að líta til aðgerða sem draga úr honum. Eitt af því er að draga úr togveiðum sem eru mjög útblástursríkar. Með því að færa veiðarnar frá togveiðum og frystiskipum yfir í veiðar með öðrum veiðarfærum, eins og t.d. línu, drögum við mjög úr loftslagsútblæstri. Við eigum að nota stjórntæki okkar til að stuðla að þessari breytingu.

Loks vil ég, virðulegi forseti, gera eina athugasemd við skýrsluna sem ég tel að öðru leyti hið ágætasta skjal. Á bls. 9 segir að löggjöf Evrópusambandsins sé ekki bara stefnumarkandi heldur lagalega bindandi fyrir Íslendinga. Ég er ósammála því. Á meðan ég hef ekki tekið þá trú að rétt sé að ganga í Evrópusambandið, (Forseti hringir.) og hef ekki tekið þann betlistaf mér í hönd, vil ég leyfa mér að halda því fram að ákvarðanir Evrópusambandsins séu ekki bindandi fyrir Alþingi Íslendinga.