135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

heildarumhverfismat vegna framkvæmda á Bakka.

[10:38]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hæstv. ráðherra kveinkar sér þegar þetta mál ber á góma. Það er kannski skiljanlegt vegna þess að Samfylkingin er um það bil að klúðra þessu máli. Það er með ólíkindum að hæstv. ráðherra komi hér og segi að þetta eigi ekki að þurfa að tefja rannsóknir. Hvað er hún að segja með þessu? Þetta er ekki fullnægjandi svar. Annaðhvort mega rannsóknirnar fara fram á meðan á þessu heildstæða mati stendur eða ekki. Það er ekki hægt að stjórnsýsla á Íslandi bjóði upp á einhverjar krókaleiðir fram hjá úrskurði umhverfisráðherra. Annaðhvort stendur hann eða ekki og hæstv. ráðherra sem hefur tækifæri til að koma hér upp aftur og svara verður að svara því: Ætlar Samfylkingin að tefja málið um ár sem kostar framkvæmdaraðilann u.þ.b. milljarð eða ætlar ráðherrann að staðfesta hér orð iðnaðarráðherra (Forseti hringir.) að rannsóknin geti farið fram þrátt fyrir sameiginlega umhverfismatið?