135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

niðurskurður póstþjónustu á landsbyggðinni.

[10:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það hryggir mig nú ef fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lítur á það sem einhvern dauðalista ef eitthvað er í ríkisrekstri. (Gripið fram í.)

Ég hef átt samræður við hv. þingmann um þá ákvörðun sem stjórn póstsins fylgir nú eftir. Ákvörðunin var tekin fyrir nokkuð mörgum missirum síðan um að breyta á nokkrum stöðum á landinu formi póstdreifingar sem er í framhaldi af því að almennar póstsendingar hafa dregist mjög saman. Það eru færri sendingar og ýmislegt annað komið í staðinn eins og háhraðatenging, bankarnir bjóða greiðsluþjónustu o.s.frv. Hefðbundnum póstsendingum hefur því fækkað.

Þess vegna leitar pósturinn hagræðingar í rekstri sínum eins og honum ber að gera og skoða allt hvað það varðar. Þá skiptir ekki máli hvort menn hafi þá tekið sig til og lokað pósthúsi í Grafarholti eða Skipholti og fært þjónustuna annað, dregið saman hér á höfuðborgarsvæðinu, tekið upp samstarf við aðila eins og kaupfélög eða sparisjóði um rekstur eða breytt um form eins og t.d. á Bakkafirði. Það á að gera á fleiri stöðum þar sem hefðbundin pósthús eins og við sáum og þekktum í gamla daga — þau voru meira að segja öll með sams konar flísum á veggjum og á gólfum — og þeim ef til vill breytt yfir í pósthús á hjólum, ef maður getur notað þá samlíkingu um landpóst. Það er þá þjónusta sem boðin er í hinum dreifðu byggðum þar sem póstur er borinn út af landpósti. Jafnframt er tekin upp sú nýbreytni og þjónusta að viðkomandi aðilar geta látið vita og fengið aðra þjónustu í staðinn eins og að taka póst, kaupa frímerki eða borga reikninga eða annað slíkt.

Þetta er breyting sem á sér nú stað og hefur átt sér stað út um allt. Hins vegar (Forseti hringir.) vil ég bara — ég ætti kannski að gefa hv. þingmanni orðið vegna þess að ég sé að hann er orðinn óþolinmóður að komast í stólinn og fæ ég aftur tækifæri til að svara.