135. löggjafarþing — 123. fundur,  12. sept. 2008.

niðurskurður póstþjónustu á landsbyggðinni.

[11:01]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmanni er mikið niðri fyrir þannig að hann heldur áfram úti í sal og það er eðlilegt og allt í lagi með það.

Það sem ég ætlaði að segja áðan, virðulegi forseti, vegna þess að rætt hefur verið um þrjú pósthús, á Laugum, Króksfjarðarnesi og annars staðar, að ég hef haft samband við stjórn póstsins og beðið um — þessi ákvörðun er tekin hjá þeim — að til lokunar komi ekki fyrr en að lokinni framkvæmd við háhraðatenginguna sem búið er að opna tilboð í, framkvæmd sem er að hefjast, þannig að á þessu svæði verði komin jafnmikil þjónusta hvað varðar fjarskipti og háhraðaþjónustu og er annars staðar og viðkomandi aðilar geti þá tekið þátt í póstfjarskiptum, fjármálaviðskiptum og öðru eins og gert er víðast annars staðar um landið þar sem þessi þjónusta er fullkomin og góð. Það er auðvitað sú breyting sem hefur átt sér stað og er að eiga sér stað, frá pósthúsum og landpóstum í dreifðum byggðum (Forseti hringir.) og frá hefðbundnum pósti í póst í fjarskiptum. Þetta er álíka breyting og þegar hætt var að bera út póstinn á (Forseti hringir.) hestum og farið var að nota bílana. (Gripið fram í: Versnaði þjónustan við það?)