136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:05]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Íslenskt samfélag stendur nú frammi fyrir einu flóknasta úrlausnarefni síðari tíma. Alþjóðleg fjármálakreppa ríkir í heiminum og hún hefur teygt anga sína til Íslands svo um munar. Því til viðbótar hefur staða íslensku krónunnar aukið á vanda okkar.

Á síðustu árum höfum við Íslendingar lifað góða daga. Hagvöxtur hefur verið mikill og öflugt atvinnulíf hefur skilað sér í auknum kaupmætti og velmegun sem á sér ekki fordæmi. Þar hefur enginn verið undan skilinn. Stjórnvöld hafa notað góða stöðu síðustu ára til að styrkja innviði íslensks samfélags til framtíðar. Aukið fjármagn hefur verið sett til þess að efla samfélagslega þjónustu með góðum árangri. Menntakerfið, ekki síst háskóla- og vísindaumhverfið, hefur verið eflt og menntunarstig þjóðarinnar hefur aukist umtalsvert á stuttum tíma. Heilbrigðiskerfið skilar framúrskarandi árangri, samgöngur hafa verið bættar, félagsleg þjónusta verið styrkt og stuðningur við aldraða og öryrkja hefur verið aukinn verulega. Innviðir þjóðfélagsins eru gerbreyttir og við blasir þjóðfélag tækifæra og hagsældar. Við höfum greitt niður skuldir ríkissjóðs, byggt upp öflugt lífeyrissjóðakerfi sem á sér enga hliðstæðu í heiminum og tekjuafgangur ríkissjóðs undanfarin ár hefur verið lagður til hliðar til mögru áranna og það kemur sér vel nú.

Kaupmáttur almennings hefur aldrei í sögunni verið eins mikill, atvinna hefur verið næg sem og samkeppni um vinnuafl. Þessar aðstæður ýttu undir bjartsýni meðal fólks. Velgengni og uppsveifla í samfélaginu voru smitandi og ekki verður fram hjá því litið að bæði einstaklingar og fyrirtæki hrifust með og tóku á sig skuldbindingar sem reynist nú mörgum erfitt að standa við við breyttar efnahagsaðstæður. Það er ekki síst þess vegna sem við þurfum að taka efnahagsmálin föstum tökum.

Virðulegi forseti. Það eru breyttir tímar. Stjórnvöld, fyrirtækin og heimilin þurfa að bregðast við skyndilegum samdrætti með ráðdeild og skynsemi. Þar kemur sveigjanleiki íslensks samfélags að góðum notum. Við þurfum að koma á jafnvægi í atvinnulífinu á ný, auka traust á og styrkja gjaldmiðilinn, ná niður verðbólgunni, vaxtastiginu og viðskiptahallanum. Þetta er risavaxið verkefni, það verður ekki auðvelt og það mun taka á okkur öll. Vandinn snýr að öllu samfélaginu og fullnægjandi árangur mun ekki nást nema með sameiginlegu átaki allra. Enginn er undanskilinn, ekki ríkisvaldið, ekki sveitarfélögin, ekki fyrirtækin, stéttarfélögin, stjórnmálaflokkarnir né fjölskyldurnar í landinu. Það má enginn skorast undan.

Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir snýst um framtíð þjóðarinnar. Það snýst um almannahag. Þar verðum við að setja til hliðar hagsmuni einstakra fyrirtækja og manna. Framtíð barna okkar er í húfi. Það er lykilatriði að auka verðmætasköpun í landinu. Við þurfum að styrkja gjaldeyrisstöðuna, fá erlent fjármagn inn í landið. Þannig getum við nýtt tækifæri til atvinnusköpunar. Við þurfum að nýta auðlindir okkar í þessu skyni. Auðlindanýting á alltaf að vera hluti af eðlilegri atvinnusköpun í landinu en um leið þurfum við að sjálfsögðu að umgangast náttúruna af varfærni og virðingu. Allar þjóðir leggja áherslu á auðlindir sínar og sérstöðu til að skapa sér sóknarfæri meðal þjóða. Aðrar þjóðir eiga olíu, járn, skóga en okkar auðlindir eru orkan, fiskurinn, náttúran og þekkingin sem við getum nýtt okkur með áræðni. Þar hvetur okkur áfram sú staðreynd að verðmæti þessara auðlinda hefur aldrei áður verið metið svo hátt sem nú og verður stöðugt verðmætari. Við verðum að vinna að sama markmiði. Það höfum við ekki alltaf gert. Vænleg verkefni hafa verið hrakin burt, steinar hafa verið lagðir í götu annarra, meiri hagsmunir látnir víkja fyrir minni. Deilur um framkvæmd umhverfismats, um lagningu raflína gegnum sveitarfélög, um lyktar- eða umhverfismengun eru dæmi um mál sem hafa tafið verkefni eða latt áhugasama aðila til að fjárfesta á Íslandi. Það er skylda okkar að leysa slík álitamál.

Þótt boðaföll gangi nú yfir íslenskt samfélag eru bjartari tímar fram undan þegar til lengri tíma er litið. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur metið framtíðarhorfur á Íslandi öfundsverðar. Fleiri hafa tekið undir það. Við byggjum á sterkum grunnviðum og getum mætt áföllum og mótlæti betur en margir aðrir. Ríkissjóður stendur sterkur og öfugt við aðrar þjóðir hvílir ekki á honum stór skuldabaggi gagnvart lífeyrisþegum framtíðarinnar sem er eitt mesta áhyggjuefni annarra vestrænna þjóða.

Þjóðin er ung og atvinnuþátttaka er óvenjumikil, ekki síst meðal ungmenna, kvenna og eldra fólks í samanburði við aðrar þjóðir og við höfum getað gengið að öruggri atvinnu. Ólíkt því sem er víða annars staðar koma erlendir ríkisborgarar til landsins fyrst og fremst í atvinnuskyni og færa tekjur inn í landið. Nánasta framtíð er hins vegar óviss. Við höfum öll áhyggjur af stöðu mála í dag. Við höfum áhyggjur af afkomu fjölskyldna okkar, skuldastöðu heimilanna, verðhækkunum, hugsanlegu atvinnuleysi og áföllum þjóðarbúsins. Þetta er ekki staða sem við höfum kosið okkur. Við höfum hins vegar áður staðið frammi fyrir óvissu og erfiðleikum og þá höfum við borið gæfu til að standa þétt saman og sigrast á þeim. Okkar styrkur er samhygð og samstaða þegar á reynir. Okkar styrkur er einnig traust stjórnmálaleg forusta sem setur almannahag ofar öllu.

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Við skulum ekki gleyma að við höfum allar forsendur til að líta björtum augum til framtíðar. Við skulum þétta raðirnar og nýta alla okkar krafta til að sigrast á þeim tímabundnu erfiðleikum sem við stöndum nú frammi fyrir. — Góðar stundir.