136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:31]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Hæstv. forsætisráðherra sagði í ræðu sinni áðan að sjaldan hefði íslenska þjóðin staðið frammi fyrir jafnmiklum vanda og nú og við getum vafalaust öll tekið undir að þannig er það því miður. Hæstv. forsætisráðherra sagði einnig: „Enginn sá þennan vanda fyrir“ og það var ekki rétt. Ég hef varað við þessu frá því að ég kom á þing síðastliðið sumar, þ.e. sumarið 2007, að hætt væri við því að kreppa væri að síga yfir. Í mars síðastliðnum ræddum við um efnahagsmál og þá var látið sem ekkert væri að. Það var talið að þau varnaðarorð sem við höfðum uppi væru svartagallsraus og ætti að hafa að engu. Það þýðir ekki að tala núna um það að stjórnarandstaðan hafi ekki verið ábyrg. Hún var ábyrg vegna þess að hún varaði við, hún vakti athygli á þeim vanda sem við var að etja. Því miður skellti ríkisstjórnin skollaeyrum við því sem við bentum á.

Hv. þm. Guðni Ágústsson sagði í ræðu sinni áðan að í stefnuræðu forsætisráðherra væri ekki að finna neina stefnu. Það var að meginhluta til rétt hjá formanni Framsóknarflokksins en ekki algerlega rétt. Þegar grannt er skoðað má finna eftirfarandi stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í stefnuræðunni. Í fyrsta lagi að láta einskis ófreistað að ná jafnvægi á ný. Það er hins vegar ekki sagt með hvaða hætti eða hvernig það skuli gert. Jafnframt að forðast skuli atvinnuleysi. Það er heldur ekki gerð grein fyrir því hvernig eigi að ná fram þeirri stefnumörkun. Í þriðja lagi að hvika hvergi frá markaðri fiskveiðistefnu. Þetta voru þau stefnuáhersluatriði sem ég gat fundið í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra og önnur ekki og þar er stefnan því miður ekki mörkuð öðruvísi en sem almennar viljayfirlýsingar um að æskilegt sé að þjóðfélagið þróist með ákveðnum hætti en ekki hvernig. Það er hins vegar það sem skiptir máli fyrir ábyrga forustu í stjórnmálum, að gera þjóðinni grein fyrir því hvað eigi að gera, hvernig eigi að fara að hlutunum. Ég tel að það hafi verið farið mjög rangt að þegar ríkisstjórnin ásamt Seðlabankanum í bakherbergjum ákvað að kaupa Glitni. Af hverju? Ekki vegna þess að ég sé andvígur aðgerðinni í sjálfu sér heldur af því að mig skortir allar forsendur til að gera mér grein fyrir því hvort þetta var hin rétta leið eða hvort ætti að fara aðra leið. Þingið hefur ekki fengið neinar upplýsingar um það. Það er vegna þess að þingræðið á Íslandi er ekki virt og það er ef til vill ástæðan fyrir öryggisleysi almennings.

Í Bandaríkjunum liggur frumvarp fyrir báðum deildum Bandaríkjaþings um aðstoð við fjármálakerfið í landinu. Þar fer fram eðlileg lýðræðisleg umræða fyrir opnum tjöldum þar sem vandinn er reifaður, þjóðin veit hvað um er að ræða, þjóðin gerir sér grein fyrir því hver vandinn er. Þingið gerir sér grein fyrir því hver vandinn er. Hér fara menn á helgarfundi bak við byrgða glugga í Seðlabankanum og koma síðan á miðnætti á sunnudegi og gera grein fyrir því í fámennum hópi að það hafi verið tekin ákveðin ákvörðun en þjóðin fær ekkert að vita um hvaða ástæður liggja að baki því að þannig skuli vera staðið að málum. Ég tel að svona vinnulag hafi stuðlað að því öryggisleysi sem nú ríkir í þjóðfélaginu og það er ríkisstjórnin sem ber alla ábyrgð á því að þannig skuli staðið að málum. En það er ekki bara það að þetta valdi öryggisleysi, þetta er líka alvarleg atlaga að þingræðinu í landinu. Það er verið að tilkynna okkur að það eigi að verja 84 milljörðum, sem eftir gengisfellinguna eru orðnir 93 milljarðar af ríkisins fé, en hverjir eru það sem hafa fjárveitingavaldið? Það er Alþingi Íslendinga. Það er ekki talað við Alþingi fyrir fram. Hvenær á að tala við Alþingi? Hvenær á að bera þessa gjörð undir Alþingi Íslendinga? Hvenær á fjárveitingavaldið að koma að þessu máli? Eftir á, ekki fyrir fram, engar hugmyndir, ekki neitt. Slíkt ber að átelja.

Í annan stað vil ég átelja það þegar hæstv. forsætisráðherra talar um að halda óbreyttu kvótakerfi þrátt fyrir að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafi talað um og ákveðið og sent frá sér álit um að þar væri um mannréttindabrot að ræða. Það er ósæmilegt að þannig skuli vera. Ég hef talið allt frá árinu 2001 að við fylgdum glórulausri peningamálastefnu með því að hafa krónuna á floti, í minnsta myntkerfi heims. Milton Friedman sem aðeins hefur komið til umræðu hjá Steingrími J. Sigfússyni, minnir mig, talaði um að eðlilegt væri að hafa peningakerfið með þeim hætti þar sem um stóra gjaldmiðla væri að ræða en ekki örmyntir eins og íslensku krónuna. Þeir sem að þessu stóðu bera alla ábyrgð á því að svo skuli vera komið. Ég varaði við þessu og ég benti á að vegna þessarar peningamálastefnu — eða eigum við jafnvel að segja vegna skorts á peningamálastefnu? — þá búum við nú við séríslenskan vanda sem er ekki hluti af þeim heimsvanda sem um er að ræða og okkar séríslenski vandi er óðaverðbólga, hrun gjaldmiðils, ábyrgðarlaus peningamálastjórn og skuldir heimilanna eru að vaxa. Við búum við ofurháa stýrivexti sem eru að sliga atvinnulíf og verðtryggingu sem er að eyðileggja fjárhag fjölskyldnanna. Það er þjófur, hljóðlátur, í húsum Íslendinga í dag sem á hverjum degi tekur veruleg verðmæti frá þjóðinni. Það er verðbólgan. Það er verðtryggingin. Það er hinn íslenski vandi og hinn íslenski veruleiki sem unga fólkið stendur frammi fyrir í dag.

Ég lýsi því yfir, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson gerði, að við í Frjálslynda flokknum erum tilbúnir til allra aðgerða sem geta þokað hlutum fram á við, að sjálfsögðu. Það er ábyrg stjórnarandstaða á Íslandi. Við gerum okkur grein fyrir alvarleika málsins.

Góðir Íslendingar. Við eigum ægifagurt land. Þjóðin er dugleg og vel menntuð. Við vinnum okkur út úr þeim vanda sem við er að etja. Til þess þurfum við ríkisstjórn sem veit hvert á að stefna og hvað á að gera. Með góðri stjórn er auðvelt fyrir dugmikla þjóð eins og Íslendinga að ná tökum á málinu aftur. Erfiðir tímar vara ekki að eilífu. Íslenska þjóðin gerir það. Dugmikil þjóð vinnur sig út úr vandanum en það þarf vilja, hugmyndir, styrk og stefnufestu. Það er það sem þarf. — Ég þakka fyrir.