136. löggjafarþing — 2. fundur,  2. okt. 2008.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:55]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Óhætt er að segja að mikil efnahagsleg vá sé yfir íslensku samfélagi og á tímum sem þessum er brýnt að við stöndum saman og leitum leiða til þess að leysa þau miklu vandamál sem við okkur öllum blasa. Fólk á mínum aldri, sem margt hvert er nýkomið úr námi og hefur fest kaup á húsnæði, skuldar námslán og tók tilboðum bankanna um myntkörfulán, er vægast sagt uggandi um stöðu mála. Margir ganga jafnvel svo langt að tala um að freista gæfunnar fremur erlendis en hér á landi. Það hefur því sjaldan verið eins brýnt að stjórnvöld veiti nú forustu, hafi skýra framtíðarsýn og grípi til aðgerða.

En höfum við slíka ríkisstjórn? Nú dugar aðgerðaleysi forsætisráðherra nefnilega ekki lengur til, aðgerðaleysið sem m.a. hefur leitt til þeirrar stöðu sem við búum við í dag. Það vantar gjaldeyri í landið. Lausafjárskortur er alvarlegt mál og í raun einn meginvandi hagkerfisins í dag. Því er eðlilegt að spurt sé: Hvers vegna í ósköpunum hefur ríkisstjórnin ekki enn nýtt sér til fulls þá heimild sem Alþingi gaf í vor um aukningu á gjaldeyrisforða Seðlabankans? Heimild til 300 milljarða kr. lántöku liggur enn ónýtt og hver er staðan fyrir vikið? Skuldatryggingarálag íslenska ríkisins er nú komið yfir 600 punkta en var um miðjan maímánuð, þegar heimildin var gefin, 60–70 punktar. Í dag er því hátt í tíu sinnum dýrara að auka gjaldeyrisforðann sem er nauðsynleg aðgerð.

Góðir Íslendingar. Þetta er aðeins hluti herkostnaðar sem aðgerðaleysið hefur haft í för með sér. Það þarf að breyta peningamálastefnu Seðlabankans og hefði þurft að gera það fyrir löngu síðan. Forsætisráðherra boðaði slíkt fyrir um hálfu ári á ársfundi Seðlabankans. Enn hefur hann ekki séð sér fært að hefja þá vinnu. Fyrirtækin í landinu geta einfaldlega ekki lifað við 20–25% vexti. Óbreytt peningamálastefna mun leiða til fjölda gjaldþrota heimila og fyrirtækja og atvinnuleysi mun rjúka upp í framhaldinu. Því þarf að lækka stýrivexti Seðlabankans og breyta óraunhæfum verðbólgumarkmiðum. Þetta eru verkefni dagsins í dag.

Við þurfum einnig að horfa lengra inn í framtíðina. Hvert viljum við stefna, hvað með gjaldmiðilinn okkar? Viljum við halda í krónuna sem gjaldmiðil til næstu áratuga eða viljum við taka upp evru? Ef við Íslendingar viljum taka upp evru er óhjákvæmilegt að við göngum í Evrópusambandið. Þetta eru kostirnir og ég tel að við getum ekki látið aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ráða för í svo stóru máli sem við ræðum hér. Út frá efnahagslegri velferð þjóðarinnar er mikilvægt að úr því verði skorið sem allra fyrst, það er mín bjargfasta sannfæring.

Góðir Íslendingar. Við þurfum að ljúka við Evrópuumræðuna, umræðu sem hefur verið í sama hjólfarinu síðustu árin og hefur einkennst af skotgrafahernaði þeirra sem eru með eða á móti aðild. Ég hugsa að 70% þjóðarinnar séu einhvers staðar þar á milli og ég er einn af þeim. Ákvörðun um inngöngu liggur hjá ykkur. Því tel ég að almenningur í landinu eigi heimtingu á því að segja skoðun sína í einu mikilvægasta hagsmunamáli okkar Íslendinga. Ég mun því leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu hér á Alþingi þar sem almenningi verður gefinn kostur á að segja hug sinn hvort Ísland eigi að fara í aðildarviðræður eða ekki. Ég tel einfaldlega að við komum umræðunni og ákvörðunum um Evrópumál ekki áfram með öðrum hætti. Þingmenn þjóðarinnar bera þá skyldu að lyfta umræðunni um þetta mikilvæga mál upp á annað plan þannig að við sem þjóð getum horft til langrar framtíðar um hvernig við viljum haga gjaldmiðilsmálum okkar og samskiptum við aðrar þjóðir.

Góðir Íslendingar. Í dag þarf að leysa þann mikla vanda sem blasir við hvert sem litið er en við þurfum ekki síður að horfa langt fram á veginn. Það er verkefni okkar allra. — Ég þakka þeim sem hlýddu.