136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:18]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að á þessum tímum mikils umróts er það vandasamt verkefni að vinna og leggja fram fjárlög íslenska ríkisins. Sú þróun sem fjármálaráðherra lýsti varðandi tekjur og gjöld ríkissjóðs í frumvarpinu sem hér hefur verið lagt fram hlýtur að vera öllum áhyggjuefni.

Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra kom fram að gert er ráð fyrir hækkun heildarútgjalda á næsta ári sem nemur rúmum 73 milljörðum kr. sem samsvarar tæplega 17% hækkun frá fjárlögum ársins 2008. Ég geri mér grein fyrir því að forsendur fyrir fjárlagagerðinni hljóta að vera töluvert breyttar þegar við höfum í huga að þjóðhagsspáin gerir nú ráð fyrir verðhækkunum upp á 11,5% á milli áranna 2007 og 2008 þegar fjárlögin gerðu ráð fyrir verðhækkunum upp á rétt innan við 4% eða 3,8%.

Af því leiðir að stór hluti þessarar fjárhæðar, sem eru 73 milljarðar rúmir, hlýtur að vera vegna verðlagshækkana en engu að síður má sjá í frumvarpinu að raunaukning útgjalda er um 33 milljarðar og kom fram í máli hæstv. ráðherra.

En ég vildi spyrja hann um það í hvaða málaflokkum og verkefnum þessar hækkanir er helst að finna.