136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[11:22]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru miklar stærðir sem hér koma fram og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er ljóst að miðað við þær fjárhæðir sem hér hafa komið fram, og ekki síst í ljósi þeirrar stöðu sem við glímum nú við í efnahagslífi þjóðarinnar, þá eru þau verkefni sem fjárlaganefnd stendur frammi fyrir þegar hún fær þetta frumvarp til meðferðar ærin. Ljóst er að þetta hlýtur að kalla á og vekja spurningar um getu ríkissjóðs til að annast þau verkefni sem hér um ræðir og getu sjóðsins til að takast á við það að bæta í.

Ég ítreka þakkir til ráðherra fyrir svörin og vænti þess að í framhaldinu og í þeirri vinnu sem fram undan er, sem á engan hátt verður auðveld, munum við eiga gott samstarf við fjármálaráðuneytið og þá starfsmenn sem þar inna af hendi vandasöm störf.