136. löggjafarþing — 3. fundur,  3. okt. 2008.

fjárlög 2009.

1. mál
[15:22]
Horfa

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vildi óska þess að mér hefði tekist að túlka svör hæstv. umhverfisráðherra með jafnjákvæðum hætti og hv. þm. Björk Guðjónsdóttir gerir. Því hefur vissulega verið svarað til að allir möguleikar séu opnir; það vitum við að þeir eru alltaf. Það væri vitaskuld ekki svona farið, trúi ég, ef annaðhvort hv. þm. Björk Guðjónsdóttir eða sá sem hér stendur sæti í stól umhverfisráðherra. Mér þykir þó svarið ekki fullnægjandi. Ég vil fá svar við því hvort hv. þingmaður er til í að ljá þeirri baráttu lið að framkvæmdastjórastaða Vatnajökulsþjóðgarðs verði flutt heim í hérað; að þeirri ákvörðun verði breytt sem fest var fyrr á þessu ári að hafa stöðuna með aðstoðarmannsstarfi hér í miðborg Reykjavíkur.

Nú birtir yfir salnum þegar hinn brosmildi formaður fjárlaganefndar kemur í salinn. Seinni spurning mín lýtur að því hvort hv. þingmaður telji eðlilegt að á meðan atvinnulífinu og heimilunum blæðir af verðbólgu og gengisfalli fái ríkisstofnanir allan sinn verðbólgu- og gengiskostnað bættan, eins og er gert ráð fyrir og hægt er að lesa um í fjárlagafrumvarpinu, að mig minnir á blaðsíðum 214 og 215. Þessar tölur koma náttúrlega fyrir miklu víðar í frumvarpinu en gert er ráð fyrir 13–20% hreinum hækkunum vegna verðbólgunnar. Þá er ég ekki að tala um aðrar sértækar hækkanir vegna einstakra verkefna. Ég kalla eftir því hvort stjórnarliðar telji þetta eðlilegt. Að mínu viti göngum við nú inn í tíma þar sem allir verða að herða sultarólina mjög og það er (Forseti hringir.) ekki eðlilegt að ríkið sé á allt öðru skipi.