136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:10]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið er hér flutt að nýju tillaga til þingsályktunar sem lögð var fram á síðasta þingi fyrir ríkisstjórn, tillaga um að taka upp viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga, um að auka hlutdeild þeirra í skatttekjum.

Í umræðu um málið síðastliðið haust kom fram af minni hálfu að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styddum framgang þessa máls og í sjálfu sér hefur ekkert breyst í því efni, þ.e. hvað varðar stuðning okkar við málið. En auðvitað hefur ýmislegt í hinu efnahagslega umhverfi hér á landi breyst gríðarlega mikið frá því að þetta sama mál var rætt fyrir ári síðan. Vissulega kann það að hafa einhver áhrif á hvernig um málið verður fjallað. Engu að síður held ég að hafi það verið brýnt fyrir ári síðan að tala um tekjustofna sveitarfélaga, tekjur sveitarfélaga og möguleika þeirra til að standa undir sínum lögbundnu verkefnum þá sé enn frekar tilefni til þess á þeim tímum sem við lifum og þeim sviptingum sem eiga sér stað í efnahagslífinu núna.

Hv. flutningsmaður, Magnús Stefánsson, gat þess í framsöguræðu sinni að í framkomnu fjárlagafrumvarpi væri ekki gert ráð fyrir sérstöku aukaframlagi í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga upp á um 1.400 millj. kr. eins og verið hefur undanfarin ár. Þetta framlag hefur verið þannig, ef ég fer rétt með, að það hefur verið 700 millj. kr. aukaframlag í jöfnunarsjóðinn sem síðan hefur í sérstökum samningum milli ríkis og sveitarfélaga verið aukið í 1.400 millj. kr. til sérstakra verkefna. Þetta aukaframlag hefur því í raun verið óbreytt krónutala í nokkur undanfarin ár, 1.400 millj. kr. Í fjárlagafrumvarpinu sem nú liggur fyrir sér þess ekki stað að gert sé ráð fyrir slíku. Þessu til viðbótar, eins og hv. flutningsmaður gat um, þá þýðir samdráttur í tekjum ríkissjóðs óneitanlega samdrátt á þeim framlögum sem fara í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga vegna þess hvernig tekjur jöfnunarsjóðsins eru reiknaðar.

Mér sýnist í fljótu bragði að þessir tveir þættir þýði að tekjur jöfnunarsjóðs á næsta ári verði um 3 milljörðum kr. minni en á yfirstandandi ári. Þetta eru auðvitað gríðarlega miklir fjármunir fyrir jöfnunarsjóðinn og fyrir sveitarfélögin í landinu og skiptir þau miklu máli. Til viðbótar við það tekjutap sem sveitarfélögin sjálf verða fyrir í minnkandi útsvarstekjum vegna tekjusamdráttar í samfélaginu — þau verða að sjálfsögðu fyrir tekjutapi rétt eins og ríkissjóður — þá blasir við að það verður verulegur samdráttur í tekjum sveitarfélaganna á næsta ári miðað við það sem þau eru með í dag. Við vitum það öll að verkefni sveitarfélaganna eru flest hver lögbundin og það er gríðarlega erfitt að draga úr þeirri þjónustu sem sveitarfélögin veita, að minnsta kosti í sama takti og tekjurnar dragast saman, jafnvel þótt menn hefðu pólitískan vilja til þess sem er auðvitað annað mál. En flest af verkefnum sveitarfélaga eru lögbundin og þar er ekkert um það að ræða að skera þau af, ef svo má segja, til þess að mæta tekjusamdrætti.

Fyrir nú utan að hlutverk sveitarfélaga sem opinbers aðila er auðvitað mikilvægt ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna. Það er mikilvægt að þau leggi sitt af mörkum til þess að tryggja, eða skulum við segja til þess að stuðla að stöðugleika í efnahagslífinu, m.a. með því að tryggja þjónustu sem íbúar sveitarfélaganna þurfa á að halda, tryggja starfsfólki sínu örugga vinnu og koma þannig í veg fyrir atvinnuleysi sem áreiðanlega mun hvort eð er aukast á næstu mánuðum og missirum.

Á þeim tímum kreppir líka að hjá sveitarfélögunum vegna þess að samdrætti í efnahagslífinu fylgir almennt aukin félagsleg aðstoð af hálfu sveitarfélaganna. Því má búast við því að útgjöld sveitarfélaganna, m.a. til þess málaflokks, muni frekar aukast á næstunni heldur en hitt á sama tíma og tekjur þeirra dragast saman. Staða þeirra er því vissulega uggvænleg og í umræðunni um stöðu þjóðarbúsins hefur oft verið sagt með réttu að staða ríkissjóðs sé tiltölulega góð, hann sé nánast skuldlaus, en hið sama verði ekki sagt um þjóðarbúið í heild og þá tala menn um fyrirtækin, heimilin og sveitarfélögin. Sveitarfélögin eru talsvert skuldsett og því má kannski ekki miklu þar við bæta. Ég held að staða sveitarfélaganna sé eða verði á næsta ári — þykist ég vita og heyra úr ranni þeirra sem vinna við fjárhagsáætlanir — gríðarlega erfið og við þeim blasir mikill vandi á næsta ári. Því held ég að það sé mjög mikilvægt að þetta þingmál fái framgang og að farið verði í viðræður við sveitarfélögin um hvernig megi bregðast við vanda þeirra og það væri fróðlegt að heyra hvað hæstv. samgönguráðherra hefur um það mál að segja.

Það eru nokkur atriði sem ég hefði viljað impra á við hæstv. ráðherra þar sem hann er viðstaddur umræðuna. Það er t.d. spurningin um að hvað miklu leyti hæstv. samgönguráðherra telji koma til álita að auka svigrúm sveitarfélaganna sjálfra til að ákveða skatttekjur sínar. Við vitum að í dag eru skattstofnar eða tekjustofnar sveitarfélaganna ákveðnir með lögum. Víða í löndunum í kringum okkur er skattheimtuvaldið alfarið í höndum sveitarfélaganna. Þau hafa sjálf möguleika á að ákveða útsvar sitt og jafnvel aðra tekjustofna og þá með þeim rökum að þar sé um að ræða lýðræðislega kjörin stjórnvöld sem að sjálfsögðu standa skil á því sem þau sjálf ákveða gagnvart kjósendum sínum líkt og á Alþingi.

Ég hef aðeins fylgst með fundum landshlutasamtaka sveitarfélaganna í haust og þar hefur hæstv. samgönguráðherra komið og tekið þátt í störfum þeirra og verið með framsögu um sína sýn á sveitarstjórnarmálin. Þar hefur m.a. komið fram sú afstaða hans, eða hann hefur kynnt að það eigi að fara í eða sé kannski farið í nú þegar endurskoðun á annars vegar sveitarstjórnarlögum og hins vegar lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Því leikur mér forvitni á að vita hvort sú vinna er farin af stað af hálfu hæstv. samgönguráðherra og hvernig hann hyggst standa að henni og hvort hann hafi það markmið, t.d. varðandi tekjustofnana að breikka þá með einhverjum hætti, tryggja þá betur, fjölga þeim eða gefa sveitarfélögunum meira svigrúm til þess að ákveða tekjustofna sína sjálf. Einnig hefði ég gjarnan viljað heyra frá honum með hvaða hætti hann hyggst standa að þessari endurskoðun, hvort það verði í einhvers konar samstarfsverkefni á vettvangi stjórnmálanna. Hér er um gríðarlega þýðingarmikið verkefni að ræða sem varðar sveitarstjórnarstigið og ríkið að sjálfsögðu líka. Það varðar þjónustu við íbúa landsins og snertir alla stjórnmálaflokka sem taka þátt í landsmálum og í sveitarstjórnarmálum. Mér þætti áhugavert að heyra hvað hæstv. samgönguráðherra hefur hugsað sér í þessu máli.

En virðulegi forseti. Að lokum vil ég bara segja að eins og málum er háttað þá er jafnvel enn brýnna nú en áður að farið verði yfir stöðu sveitarfélaganna, tekjustofna þeirra og hvernig þau eiga að mæta þeim búsifjum sem þau óumflýjanlega verða fyrir á næstu mánuðum og missirum vegna aðstæðna í efnahagslífinu. Þess vegna styð ég og við í mínum þingflokki framgang þess þingmáls sem hér er til umræðu.