136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:29]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í umræður um þessa þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir um aukna hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum. Ég held að flestir geti í prinsippinu verið sammála því efnislega sem stendur í þessari tillögu og ég hef m.a. talað um þessa tekjumisskiptingu, sem ég leyfi mér að kalla, milli ríkis og sveitarfélaga á öðrum vettvangi. Ég vil líka benda á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstaklega talað um að þetta mál skuli skoðað og reynt að koma til móts við sveitarfélögin með einhverjum hætti. Hins vegar er svolítið sérstakt að standa í ræðupúlti Alþingis í dag, ræða þingmannamál og hafa fyrirspurnir eins og ekkert hafi í skorist eftir þann stóra og mikla dag sem var í gær. Í nótt samþykktum við neyðarlög vegna þess ástands sem nú skekur Ísland, heiminn allan og fjármálalífið. Þess vegna má kannski færa fyrir því rök að stundum hafi verið heppilegri tímasetning á tillögu sem þessari en akkúrat í dag. Það sjá allir í hendi sér að eins og staðan er í dag munu fjárhagsáætlanir sveitarfélaga, alveg eins og fjárlagafrumvarpsins, breytast gríðarlega. Allar þær forsendur sem menn gáfu sér í sumar eru gerbreyttar eftir gærdaginn. Það verða menn að hafa í huga í þessari umræðu.

Ég sá á vef Morgunblaðsins í morgun frétt þess efnis að Reykjavíkurborg hefði kynnt aðgerðaáætlun til að bregðast við ástandinu. Hún felur m.a. í sér að — fólki verður reyndar ekki sagt upp störfum en Reykjavíkurborg ætlar að halda að sér höndum í nýráðningum og trappa niður allar framkvæmdir. Mér skilst að það eigi að setja á gjaldskrárstopp og ég hygg að sveitarfélög víða um land séu í svipuðum stellingum og Reykjavíkurborg, og ríkið ef út í það er farið. Allir fara í þær aðgerðir sem þörf er á miðað við núverandi ástand. Mér fannst fullt tilefni til að nefna þetta í umræðu varðandi þessa tillögu; hún verður að skoðast í ljósi þessa efnahagsástands sem uppi er núna. Hins vegar tek ég hugmyndinni fagnandi inni í samgöngunefnd sem núna fer með sveitarstjórnarmálin. Við munum ræða hana þar efnislega og ef tillögur hæstv. forseta verða að veruleika, sem hann kynnti við setningu þings um að öll mál verði afgreidd út úr nefndum og öll þingmannamál komi til kasta þingsins, verður þetta væntanlega eitt af þeim málum sem þingið getur eftir atvikum fellt, samþykkt eða sett í einhvern farveg. Ég vil reyndar nota þetta tækifæri til að lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þessa hugmynd forseta vegna þess að eitt af því sem kom mér ákaflega spánskt fyrir sjónir þegar ég settist inn á þing fyrir ári síðan var að uppgötva að það skiptir í sjálfu sér ekki nokkru máli hversu margar þingsályktunartillögur ég legði fram sem óbreyttur þingmaður; það yrði ekkert gert með þær. Ég held að það auki virðingu fyrir þinginu að allar tillögur komi efnislega til umfjöllunar, fyrst í fagnefndum og síðan í þessum sal.

Flutningsmaður tillögunnar, hv. þm. Magnús Stefánsson, kom efnislega inn á nokkur atriði sem ég vil bregðast við. Hann vakti réttilega athygli á því að 1.400 millj. sem voru settar inn í jöfnunarsjóð á sl. ári eru ekki inni núna miðað við fjárlagafrumvarpið og hæstv. ráðherra mun væntanlega bregðast við því í svari sínu til hv. þingmanns á eftir. Ég hygg að við vitum öll sem hér erum inni að þetta mun auðvitað hafa gríðarleg áhrif á mörg sveitarfélög, en alls ekki öll. Sveitarfélögin eru mjög misjafnlega stödd fjárhagslega. Sum eiga í raun og veru alla afkomu sína undir þeim fjármunum sem þau fá úr jöfnunarsjóði. Við sem eigum sæti í fjárlaganefnd höfum heyrt frá fulltrúum sveitarfélaga, sem hafa komið inn og fylgt eftir sínum málum, að ef framlagið komi ekki frá jöfnunarsjóði geti menn einfaldlega pakkað saman og hætt rekstri. Ég ítreka þó að þetta er auðvitað ekki raunin alls staðar og alls ekki í stóru sveitarfélögunum á suðvesturhorninu.

Ég hef stundum viðrað þá hugmynd á fjármálaráðstefnu Sambands ísl. sveitarfélaga og á vettvangi þeim tengdum að mér finnst að Samband ísl. sveitarfélaga eigi sem málsvari allra sveitarfélaganna að skoða mjög gaumgæfilega að skipta og flokka sveitarfélög í a-, b- og c-sveitarfélög. Þau væru meðhöndluð sem slík vegna þess að munurinn á þeim viðfangsefnum sem menn eru að fást við t.d. í Reykjavík annars vegar og á Raufarhöfn hins vegar er eins og svart og hvítt. Menn verða að horfa á málið út frá þessum staðreyndum. Það er ekki hægt að tala um að það sama eigi við í öllum tilfellum og við eigum að horfast í augu við það. Ég hygg að hæstv. ráðherra hafi fullan hug á að ræða við Samband ísl. sveitarfélaga um það hvernig ríkið geti ásamt sveitarfélögunum komið að því að leysa það sem blasir við á næsta ári. Sveitarfélögin eru öll að vinna í sínum fjárhagsáætlunum. Það kann vel að vera að ráðuneytið og ríkið þurfi með beinum hætti að koma sumum sveitarfélögum til aðstoðar en ég ítreka: alls ekki öllum.

Einn ágætur hv. þingmaður, ég hygg að það hafi verið hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, nefndi í umræðunni hugmynd um svigrúm til að auka útsvarsprósentu sveitarfélaga ef þau kjósa svo. Það kann vel að vera að þetta sé áhugaverð hugmynd en í dag hafa sveitarfélögin í raun og veru val. Þau hafa hámarksútsvar sem þau geta lagt á og mörg gera það. Auðvitað eru nokkur sem kjósa ekki að nýta sér hámarksútsvarsprósentuna; nokkur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og þótt ég hafi þetta ekki í kollinum held ég að einnig séu einhver úti á landi sem nýta sér hana ekki. Þetta er auðvitað alltaf spurning um hversu langt menn ætla að ganga og hvar menn ætla að binda þetta hámark. Ætla menn að binda það í ríflega 13% eins og er í dag, 15%, 20% eða hvað? Ég held að það sé miklu nær að þetta sé bundið eins og er í dag og menn leiti þá leiða til að gefa sveitarfélögunum aukna hlutdeild í öðrum tekjum. Hér erum við að ræða fjármagnstekjuskattinn. Ýmislegt annað sem snertir sveitarfélögin hefur líka komið til tals, eins og t.d. almenningssamgöngur. Ég og fleiri í þessum sal höfum talað fyrir því að ríkið komi með einhverjum hætti að almenningssamgöngum og axli þannig samfélagslega ábyrgð sína á því að halda uppi samgöngum í landinu. Ýmsar leiðir eru því færar fyrir ríkið til að koma til móts við og styrkja sveitarfélögin.

Einnig var komið inn á sameiningu sveitarfélaga og íbúafjölda þeirra. Í dag er staðan þannig að 78 sveitarfélög eru á landinu. Þeim hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum og hin svokallaða frjálsa sameining sem hefur staðið yfir linnulaust í nokkra áratugi, leyfi ég mér að segja, hefur tekist býsna vel. Menn deila ekki um það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að fullreynt sé með hina frjálsu sameiningu. Þess vegna styð ég þá hugmynd hæstv. ráðherra að opna umræðu um að binda lágmarksíbúafjölda við tiltekna tölu til þess að þoka umræðunni áfram og koma henni í einhvern farveg. Við hljótum alltaf að hafa að leiðarljósi að þjónustan sem íbúarnir fá, gamla fólkið og börnin, sé sú sama hvort sem er á Raufarhöfn eða í Reykjavík. Það er ekki þannig í dag en með því að fækka sveitarfélögum og fjölga í sveitarfélögum er ég fullviss um að þessi þjónusta mun batna í framtíðinni.