136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[14:43]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Rekstrarskilyrði sveitarfélaga eru misjöfn. Á árum áður var það þannig að ef vel fiskaðist fyrir vestan var staða sveitarfélaga þar góð. Með tilkomu kvótakerfisins njóta auðvitað margir staðir í dag ekki þeirra gæða að það fiskist vel eða landburður af afla lyfti tekjum flestra í sveitarfélaginu og annað í þeim dúr. Kvótakerfið er þó bara eitt af mannanna verkum og nú þurfum við örugglega að fara að breyta því. Við þær aðstæður sem núna eru í bankamálum er fáránlegt að nota ekki tækifærið og gjörbreyta fiskveiðistjórnarkerfinu í leiðinni þar sem flest útgerðarfélög í landinu eru sennilega farin á hausinn. Að ætla að sameina sveitarfélög með handafli er þó að mínu mati algerlega útilokað. Að neyða vel rekið sveitarfélag sem hefur sýnt ráðdeild og skynsemi í rekstri til margra ára, beðið með að fjárfesta þangað til það hefur burði til þess, byggt sitt íþróttahús, sundlaugar og þjónustu við íbúana á lengri tíma en kannski sveitarfélagið við hliðina; það er dálítið súrt fyrir fólkið sem hefur kannski látið sig vanta ýmsa hluti í langan tíma að vera síðan sameinað öðru sveitarfélagi sem mun auka skuldir á hvern einstakling kannski um fleiri hundruð þúsund. Partur af því sem verið er að tala um er að það er ekki sanngjarnt að neyða fólk með handafli í svona aðgerðir. Fólkið verður að fá að ráða þessu sjálft.