136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:43]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Aðeins vegna þessarar spurningar hv. þingmanns sem flytur þá þingsályktunartillögu sem við erum hér að ræða vil ég segja varðandi jöfnunarsjóðinn að það er alveg rétt eins og við sjáum í fjárlagafrumvarpinu að það tímabundna framlag sem er að ljúka á þessu ári, 2008, er ekki í fjárlögum. Það er einfaldlega vegna þess að ríkisstjórnin stóð frammi fyrir því í vor og sumar og haust að loka fjárlögum, skila því þannig inn núna vegna þess sem þá var í þjóðfélaginu, þ.e. tekjusamdráttur og annað slíkt með, með tæplega 60 milljarða halla.

Nú verður frumvarpið rætt hér og ég hef auðvitað löngum heyrt áhyggjur sveitarstjórnarmanna af þessu framlagi og veit nákvæmlega hvernig það skiptist á landinu til þeirra sveitarfélaga sem í raun kannski minnst mega sín og mega illa við því að tapa þessum tekjum. Þetta er því verkefni sem við þurfum að vinna að. En við þær gjörbreyttu forsendur sem komnar eru í landinu er kannski ekki hægt að segja mikið um það á þessari stundu.

Hv. þingmaður sagði að skatttekjur ríkissjóðs væru að dragast saman og þar af leiðandi það sem jöfnunarsjóður fær. Hér hefur líka komið fram að mikið góðæri hefur verið í landinu, miklar skatttekjur og sveitarfélögin hafa fengið miklu meira úr jöfnunarsjóði en áður hefur verið við þær miklu tekjur vegna þess að það er ákveðið hlutfall sem rennur til jöfnunarsjóðs. Nú slær í baksegl og þá þarf að fara í gegnum þetta allt saman.

En ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti, að á fimmtudaginn verður fundur með forustumönnum Sambands sveitarfélaga og þá munum við fara í gegnum öll þessi atriði. Ég ítreka það líka sem ég sagði áðan að það verður mikilvægt í þessum hremmingum sem ganga yfir íslenska þjóð að sveitarfélögin geti sinnt sínum lögbundnu verkefnum fyrir íbúa þeirra.