136. löggjafarþing — 8. fundur,  7. okt. 2008.

hlutdeild sveitarfélaga í innheimtum skatttekjum.

10. mál
[15:45]
Horfa

Flm. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil í lok umræðunnar um þetta þingmál þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram, mér hefur fundist hún málefnaleg og yfirgripsmikil og hér hafa talað margir hv. þingmenn sem hafa reynslu og mikla þekkingu á sveitarstjórnarmálum. Ég vil líka þakka hæstv. ráðherra fyrir þátt hans í umræðunni og margt sem kom fram í ræðu hans skiptir máli.

Ástæða er til að ræða frekar um margt sem fram hefur komið í þessari umræðu en í sjálfu sér er ýmislegt í henni sem kannski má bíða betri tíma. Hér hefur m.a. verið rætt um sameiningu sveitarfélaga sem hefur verið verkefni ríkis og sveitarfélaga í allmörg ár. Átak í þeim málum, sem farið var í á árunum eftir 1990, skilaði reyndar ekki miklum árangri, en í umræðunni hefur verið farið yfir að mikil þróun hefur orðið í þeim málum á allra síðustu árum og á þeim tíma hefur sveitarfélögum fækkað allverulega.

Það er margt sem þarf að huga að í þessu sambandi. Við vitum að víða á landsbyggðinni eru þættir sem skipta máli. Þar á meðal eru m.a. samgöngumál eða samgöngur á milli svæða sem þarf að taka tillit til, þannig að þegar menn tala um lágmarksíbúafjölda — menn hafa nefnt t.d. eitt þúsund manns — þá tel ég að það gangi ekki upp í öllum tilfellum vegna þess að á sumum landsvæðum geta samgöngur m.a. hamlað því að sameining sé raunhæf enn sem komið er.

Við verðum líka að hafa í huga að þegar búið er að sameina sveitarfélög, tvö eða fleiri, í eitt tekur mörg ár að sameina sveitarfélögin. Vísir menn, sem hafa reynslu af þessu, hafa sagt að það geti tekið allt upp í tíu, tólf ár að ná saman sveitarfélagi sem hefur verið sameinað úr tveimur eða fleiri. Það verður því að taka tillit til alls þessa í umræðu um sameiningu sveitarfélaga og það verður einfaldlega að gefa þeim málum tíma.

Síðan er margt fleira sem þarf að taka tillit til þegar menn horfa á og vilja teikna upp sveitarfélög á landakortinu. Það eru samgöngurnar sem skipta máli og margt fleira er hægt að tína til. Við þekkjum þessa umræðu, við höfum farið í gegnum hana margoft á undanförnum árum. Það hefur orðið mikil þróun, sumir segja mikill árangur og allt í lagi með það, en margt hefur gerst í þeim málum á síðustu árum og ég er sannfærður um að það haldi áfram. Hér var einhver hv. þingmaður sem taldi að þessi vegferð frjálsra sameininga sé komin á enda, ég er ekki sammála því, alls ekki.

Fyrir líklega þremur árum, eða svo, tók ég þátt í starfi þáverandi félagsmálaráðherra og sveitarfélaganna þar sem farið var yfir þessi mál og úr því verki varð töluverð sameining. Ég er sannfærður um að tillögur sem þá náðu ekki fram að ganga eru lifandi og munu koma upp aftur þannig að ég geri ráð fyrir því að sveitarfélög á ákveðnum svæðum landsins muni sameinast fyrr en síðar. En þar kem ég aftur að samgöngumálum sem geta skipt máli í því sambandi. Ég get nefnt sem dæmi að þá ræddum við m.a. um Ísafjarðarsvæðið og möguleika á því að t.d. Ísafjarðarbær og Súðavíkurhreppur myndu sameinast. Þá var m.a. horft til þess að Súðavíkurhlíðin var talin ákveðinn tálmi í því sambandi. Það finnst mér ágætt dæmi um hvað samgöngumálin skipta miklu í þessum efnum.

Ég ætla ekki að ræða meira um sameiningarmál sveitarfélaga, við eigum örugglega eftir að ræða þau oft hér í þinginu. Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum atriðum sem hæstv. ráðherra nefndi. Ég fagna því að búið er að boða til fundar ef ég hef skilið hann rétt — í þessari viku milli ríkis og sveitarfélaga í ráðuneyti hæstv. ráðherra þar sem fara á yfir þær aðstæður sem nú eru í efnahagslífinu og væntanlega um málefnin almennt. Ég tel það mjög mikilvægt og fagna því, ekki síst vegna þess að það er í anda þeirrar tillögu sem hér er til umræðu. Ég held að það sé mjög jákvætt og gott mál.

Ég vil líka taka undir það sem hæstv. ráðherra og reyndar aðrir hv. þingmenn sögðu þegar rætt var um aðgerðaáætlanir sveitarfélaga til að mæta þeim aðstæðum sem komnar eru upp. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélögin að fara í gegnum það vegna þess að þetta er ekki einskorðað við ríkið eða almenning, þetta snertir sveitarfélögin mjög mikið og þess vegna finnst mér til fyrirmyndar hvernig Reykjavíkurborg hefur farið í það mál. Ég tek undir með hæstv. ráðherra að hvetja önnur sveitarfélög til hins sama.

Síðan er endurskoðun tekjustofnalaga og jöfnunarsjóðs verkefni sem oft hefur verið í gangi og ég tel að það sé einmitt verkefni sem alltaf muni verða í gangi með einum eða öðrum hætti. Út af fyrir sig er tilefni til þess núna að fara í þá vinnu þannig að ég held að það sé mjög gott mál.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra. Ég tel að staða og horfur í fjármálum sveitarfélaga sé gríðarlega alvarleg um þessar mundir. Því miður er útlitið ekki gott á þeim bænum frekar en hjá öðrum í samfélaginu. Ég vil því nota tækifærið og brýna hæstv. ráðherra til þess að beita sér í þessu máli, að eiga gott samstarf við sveitarfélögin þannig að hægt verði að komast að niðurstöðu í þessum málum svo að sveitarfélögin geti sinnt lögbundnum verkefnum sínum eins og þeim ber. Það er mikilvægt verkefni og vonandi næst fram skilningur á því hjá hæstv. fjármálaráðherra og öðrum í ríkisstjórninni.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka fyrir þessa umræðu. Hér var rætt um ákveðin grundvallaratriði í sveitarstjórnarmálum á málefnalegan hátt. Það sýnir að hér eru margir hv. þingmenn sem þekkja vel til mála og fara yfir þau málefnalega og af þekkingu.

Ég vænti þess að tillagan sem fer núna til samgöngunefndar fái afgreiðslu eins og ég kom að í framsögu minni. Ég tek undir að yfirlýsingar hæstv. forseta Alþingis, um að stefna eigi að því að nefndir afgreiði öll mál sem til þeirra koma, eru mjög jákvæðar. Við erum hér með mjög mikilvægt mál í höndum. Ég vona að hv. samgöngunefnd taki það fljótt og vel til umfjöllunar og afgreiðslu.