136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

umræða um stöðu mála á fjármálamarkaði.

[10:44]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra á að viðurkenna það sem mistök að hafa ekki talað við stjórnarandstöðuna, það er fimmtudagur. Ég fór fram á það í lok umræðunnar á mánudagskvöld að með okkur yrðu haldnir fundir og við fengjum að fylgjast með því, sem í rauninni gerðumst þátttakendur í því að búa til björgunarbát til þess að hægt væri að fara í að bjarga hagsmunum almennings á Íslandi. Ég bað um stuttan fund. Það hefði ekki verið stór fórn hjá einhverjum ráðherranum sem hægt er að treysta, ef einhver er slíkur til orðinn, að eyða með okkur hálftíma á hverjum morgni til þess að hafa okkur inni í stöðunni því það skiptir máli að menn spari grjótkastið og stóryrðin sem virðast að vísu stærst koma núna úr húsi stjórnarliðanna — þeir eru komnir á nornaveiðar og uppgjör innan þeirra raða skaðar líka þessa þjóð.

Ég fagna því að fundur verður haldinn með okkur og þessi umræða tekin upp í dag og get sagt við hæstv. forseta að í ljósi þess fellst ég á það að þingfundur geti haldið áfram með venjubundnum hætti. En þessi dagur er óvenjulegur og kannski einhver stærsti dagur Íslandssögunnar þar sem allir þurfa að standa saman.