136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:21]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur aldrei legið í mínu máli að Þjóðhagsstofnunin gamla hafi verið hafin yfir alla gagnrýni og vafa og allt sem frá henni kom hafi verið fullkomið. Hv. þingmaður getur örugglega fundið mörg fleiri ummæli mín þar sem ég leyfði mér að vekja athygli á að spár hennar hefðu ekki alltaf staðist og svo framvegis.

Það er líka alveg hárrétt að ég var gagnrýninn á það fyrirkomulag að Þjóðhagsstofnun starfaði á vegum framkvæmdarvaldsins. Ég man ekki til þess — og ég bið þá hv. þingmann að sýna mér þau ummæli — að ég hafi einhvern tíma gengið svo langt að segja að hún hafi unnið samkvæmt pöntunum frá ríkisstjórn. En kannski hef ég látið að því liggja að mér fyndist hún of höll undir framkvæmdarvaldið það hið sama og hún heyrði undir. Ég held að það sem ég sagði um óhóflega tilhneigingu til bjartsýni hafi stundum reynst rétt, hv. þm. Pétur Blöndal, bæði á þessum tíma og ekki síður síðar.

Í raun þakka ég hv. þingmanni fyrir stuðninginn því að málflutningur hans var náttúrlega rök fyrir því að gera þetta einmitt svona, að Efnahagsstofnun starfi sem algerlega sjálfstæð og óháð fagstofnun í skjóli af Alþingi. Það er ekki hægt að búa henni betra skjól. Það er ekki hægt að tryggja henni betur sjálfstæða stöðu. Eftir vandaða skoðun og yfirlegu var þessi leið valin með Ríkisendurskoðun og þessi leið valin með umboðsmann Alþingis og er mjög víða í löndunum í kringum okkur sem við berum okkur helst saman við, til dæmis hin Norðurlöndin, einmitt valin, þ.e. að embætti umboðsmanna og aðrir slíkir hlutir starfa í því sem ég kalla skjóli þjóðþingsins. En með því að taka það sérstaklega fram eins og hér er gert í 1. gr. að Efnahagsstofnun sé engum háð í störfum sínum þá á að vera eins vel um þetta búið og hægt er.