136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

Efnahagsstofnun.

4. mál
[11:27]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Þingmál um frumvarp til laga um Efnahagsstofnun sem allur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flytur og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður flokksins, hefur mælt fyrir, er eitt af framlögum okkar til að taka upp gjörbreytt vinnubrögð frá því sem verið hefur á undanförnum missirum og árum.

Efnahagsstofnun á að fá það hlutverk að safna gögnum og taka þátt í að leggja tölulegt mat á forsendur m.a. fyrir fjárlagagerð og áætlanir til næstu ára hvað varðar efnahag þjóðarinnar. Ég sit í hv. fjárlaganefnd fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég sit reyndar einnig í viðskiptanefnd sem hefur það hlutverk að leggja fram mat á forsendur fjárlaga, bæði tekjur og gjöld, jafnframt áherslur og stefnumörkun til næstu ára. Það gefur augaleið að fyrir þá vinnu þurfum við sem vinnum í þessum nefndum og þingið að eiga aðgang að sem öruggustum og hlutlausustum tölum og upplýsingum.

Ég er búinn að vera í fjárlaganefnd síðan 1999–2000, síðan ég var fyrst kosinn á þing. Frá þeim tíma hefur ráðherraræðið aukist, vald þingsins hefur minnkað og áhrif þess einnig. Tilskipunum frá ráðherrum hefur fjölgað og ráðherravald hefur aukist ár frá ári og hefur kannski aldrei verið meira en nú upp á síðkastið. Þá höfum við staðið býsna höllum fæti, við sem höfum skipað stjórnarandstöðu, við sem viljum leggja áherslu á aðra nálgun hlutanna, við sem viljum fá tölulegar upplýsingar og forsendur til þess að byggja á því að gögnin sem við höfum orðið að styðjast hafa í stórum dráttum verið unnin af hálfu framkvæmdarvaldsins.

Þess vegna skiptir miklu máli að við byrjum nú þegar að feta inn á nýjar brautir varðandi öll þau vinnubrögð og forsendur, hvernig við öflum þeirra og vinnum úr þeim í starfi okkar hér á Alþingi sem lýtur að efnahagsmálum þjóðarinnar. Þess vegna gerum við tillögu um stofnun Efnahagsstofnunar sem fær það hlutverk að vera ráðgefandi fyrir okkur og þingið og heyri beint undir Alþingi. Það er önnur stefna en ríkt hefur undanfarið þar sem ríkisstjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og síðan Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar hafa lagt áherslu á að fjarlægja stofnanir Alþingi. Ég nefni þær stofnanir sem vitnað til var áðan, eftirlitsstofnanir sem sprottið hafa upp. Ég nefni Fjármálaeftirlitið sem var fjarlægt Alþingi og gert það sem menn kalla „sjálfstætt“ og framkvæmdastjóri ráðinn á öðrum kjörum og öðrum forsendum til að sinna öðrum skyldum en aðrir opinberir embættismenn. Sama er með Samkeppniseftirlitið. Þannig má áfram telja.

Sem betur fer höfum við haft hér stofnanir sem við getum vitnað til reynslu á, eins og umboðsmann Alþingis og Ríkisendurskoðun. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum í málflutningi hér á Alþingi lagt það til að stofnanir eins og Fjármálaeftirlitið heyrðu beint undir Alþingi. Með því víðtæka hlutverki sem því var falið samkvæmt lögum er mjög óeðlilegt að það starfi með þeim hætti sem það gerir nú. Það á að heyra undir Alþingi og Alþingi á að bera ábyrgð á störfum þess. Ég hef einnig orðið fyrir miklum vonbrigðum með hvernig starfsemi Samkeppniseftirlitsins hefur þróast þegar sum rótgróin, aldagömul félagasamtök mega ekki starfa með eðlilegum hætti vegna þess að það sé brot á samkeppnislögum og vinna sett í gang hvað það varðar. Ég nefni Bændasamtökin, að bændur megi ekki tala saman á búnaðarþingi. Slíkar eftirlitsstofnanir þurfum við að endurskoða.

Það sem við leggjum til, herra forseti, er að við byrjum nú á Efnahagsstofnun. Við erum ekki að endurreisa Þjóðhagsstofnun þó að vitnað sé til starfa hennar. Hún leið sitt skeið og við vorum andvíg því að hún væri lögð niður á sínum tíma en síðan þá höfum við flutt um það tillögur að Efnahagsstofnun sem heyrði undir Alþingi væri sett á fót til styrktar öllu því starfi sem hér er. Það er kannski táknrænt á þessum óvissutímum þar sem sú stefna sem ríkt hefur hér undanfarin ár og það eftirlitskerfi sem byggt hefur verið upp eru nú að sigla í þrot að við leggjum fram tillögu sem gæti verið einn fyrsti liðurinn í að taka á þeim málum. Höfum samt hugfast að þó að við stofnum Efnahagsstofnun eða aðrar stofnanir sem vinna að gagnaöflun og mati á hinum ýmsu þáttum fyrir Alþingi er það Alþingi sem ber ábyrgð. Þar liggur hin pólitíska ábyrgð og hún verður ekki tekin af Alþingi með neinni stofnun sem starfar á vettvangi þess. Það er mikilvægt í því sem nú er fram undan að styrkja stöðu Alþingis, að fá inn á borð Alþingis verkefni eins og þessi. Það þarf að hverfa frá þeirri stefnu sem fylgt hefur verið undanfarin ár að veikja Alþingi með stofnunum og færa ábyrgðina frá því til stofnana sem heyra beint undir ráðherrana. Því verður að breyta. Ég held að við gerum okkur öll ljóst að það verður að gera og leggja þarf allt annað hagrænt mat á hlutina en gert hefur verið undanfarin ár.

Við megum heldur ekki gleyma hinum umhverfislega þætti, hvernig við göngum á náttúruauðlindir okkar. Ekki hefur verið lagt neitt hagrænt mat á það sem við höfum þar verið að gera. Við höfum flutt tillögur á Alþingi um að teknir verði upp grænir þjóðhagsreikningar þannig að allt verði metið í heild sinni en ekki bara út frá peningahliðinni einni saman.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa svo mörg orð um málið að öðru leyti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, 1. flm. þessa frumvarps, hefur gert mjög ítarlega grein fyrir efnislegum þáttum þess. Ég treysti því að Alþingi skynji nú þörfina á gjörbreyttum vinnubrögðum sem þarf að taka upp og frumvarp okkar er liður í því. Út frá reynslu minni við fjárlagagerð Alþingis tel ég það eina af grunnstoðum þess að þingið geti bætt vinnu sína við fjárlagagerðina. Það verði líka styrkur okkar við að meta kosti og möguleika í efnahagsstjórn landsins á næstu missirum. Þar þarf að taka á og munum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs leggja okkur alla fram. Því getur þjóðin treyst.