136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

aukinn þorskafli á fiskveiðiárinu 2008--2009.

11. mál
[14:52]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Það mætti kannski halda að maður hafi verið bænheyrður. Loksins hefur einhver úr Samfylkingunni séð ljósið og áttað sig á því að hægt er að gera hlutina með öðrum hætti en við höfum gert hingað til. Ég fagna því að Karl V. Matthíasson skuli vera búinn að átta sig á því að það er bæði óhætt að veiða meiri fisk og að endurskoða þarf verulega vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar. Það er ekki víst að það þurfi meiri peninga í hafrannsóknir heldur þarf að nýta betur og með öðrum hætti þær fjárveitingar sem fengist hafa í gegnum tíðina.

Auðvitað eru aðrar tegundir en þorskur í hafinu. Það er t.d. engin spurning um að óhætt er að veiða meira af síld hér á heimamiðum, af íslensku sumargotssíldinni. Það er sennilega einnig óhætt að veiða töluvert meira af humri og ufsa og rækjuna höfum við nánast látið eiga sig. Kolategundum getum við veitt meira af en við höfum gert og svo eru ýmsir aðrir stofnar eins og langa og keila, að ég tali nú ekki um skötusel. Það má auka veiðar á öllum þessum tegundum.

Ég er aftur á móti einn af þeim sem er skíthræddur varðandi ýsuveiðina. Við sækjum of stíft í ýsustofninn og ég hef spáð því að með sams konar sókn og núna og á síðasta fiskveiðiári förum við nærri því að eyðileggja ýsustofninn eftir tvö ár. Þegar við ræðum við fulltrúa frá Hafrannsóknastofnun segja þeir alltaf: Þið viljið bara veiða, veiða og veiða, en það er auðvitað ekki svoleiðis.

Ég hef líka áhyggjur af karfastofnunum. Ég held að karfinn sé í mikilli hættu. Karfinn er fiskur sem er seinvaxta og er lengi að verða kynþroska. Ég held að við höfum farið of geyst í að veiða hann í gegnum tíðina enda sést það á veiðinni, á hverju ári brenna inni fleiri þúsund tonn af karfa, bæði úthafskarfa og djúpkarfa og jafnvel gullkarfa. Auðvitað er hægt að nýta hafið betur en við gerum og það er það sem við höfum verið að leggja til í Frjálslynda flokknum, sérstaklega varðandi þorskinn.

Hv. þm. Bjarni Harðarson talaði um mínar prívat- og persónulegu skoðanir. Fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefur ekki verið í miklu uppáhaldi hjá okkur sjómönnum, maðurinn sem setti kvótakerfið á og varði það með öllum ráðum lengst af og stjórnaði svo jafnvel með geðþóttaákvörðunum alls konar gjörningum í gegnum tíðina. Það er fræg sagan af því þegar selt var skip úr Garðinum austur á Hornafjörð og átti að veiða áfram á svokölluðu suðursvæði. Þá var landinu skipt í tvennt, í austur frá Eystra-Horni og í vestur frá Látrabjargi. En þegar búið var að kaupa togarann austur á Hornafjörð fékk hann að veiða á sama svæði og á norðursvæði. Það munaði einhverjum 500 tonnum af þorski sem hann fékk í kvótaúthlutun ef hann var á norðursvæði en enn þá, að ég best veit, tilheyrir Hornafjörður suðursvæði, en togarinn fékk undanþágu til að veiða á norðursvæði. Það voru geðþóttaákvarðanir sem fylgdu með í árdaga kvótakerfisins og maður er búinn að sjá ýmislegt í því sambandi, þegar t.d. síld var breytt í þorsk og annað í þeim dúr. Eins þegar reknetabátar hættu að veiða í reknet og fengu að fara á nót fengu þeir að breyta í hlutfallinu tíu tonn af síld á móti einu tonni af þorski af því sem þeir áttu umfram venjulega nótakvóta. Mest var nú gert út af reknetabátum frá Hornafirði.

Framsóknarflokkurinn ber því mikla ábyrgð og jafnmikla ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn á fiskveiðistjórnarkerfinu. Það er ekkert óeðlilegt þó að nýir þingmenn haldi áfram að fylgja fyrrverandi forustumönnum og treysti sér ekki til að fara upp úr hinum úreltu hjólförum sem Framsóknarflokkurinn var í varðandi þessi mál. En ég átti von á því að nýir þingmenn (Forseti hringir.) þyrðu að breyta til.