136. löggjafarþing — 10. fundur,  9. okt. 2008.

heilsársvegur yfir Kjöl.

17. mál
[15:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. forseta til hamingju með að vera kominn í forsetastól.

Hér hefur hv. þm. Kjartan Ólafsson mælt fyrir þingsályktunartillögu ásamt 15 öðrum þingmönnum um heilsársveg yfir Kjöl. Tillagan gerir ráð fyrir að Alþingi feli ríkisstjórninni að kanna þjóðhagslega hagkvæmni þess að leggja heilsársveg yfir Kjöl. 1. flutningsmaður gat þess í framsöguræðu sinni að flutningsmenn væru úr öllum flokkum nema Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og eru skýringar á því og er sú helst, eins og gefur að skilja, að við, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, erum ekki sannfærð um þingmálið og eru fyrir því ýmsar ástæður. Eins og fram kom í máli flutningsmanns er hér um að ræða endurflutta tillögu frá síðasta þingi sem fékk nokkra umræðu og þá gerðu talsmenn flokks míns grein fyrir meginsjónarmiðum okkar. Það má segja að tvennt standi þar upp úr sem ég vil nú nefna.

Í fyrsta lagi eru það umhverfismálin. Hv. flutningsmaður gat reyndar um þau líka og sagði að hann bæri þau mjög fyrir brjósti og efast ég ekkert um það. En við metum það svo að uppbygging heilsársvegar yfir miðhálendið, þar á meðal yfir Kjöl, mundi hafa mjög neikvæð umhverfisáhrif í för með sér vegna þess að verið væri að breyta eðli vegarins frá því að vera, ef svo má segja, ferðamannavegur sem tekur fyrst og fremst til sín umferð á sumrin í það að vera meginsamgönguæð milli Norður- og Suðurlands með því mikla umferðarmagni og þungaflutningum sem því fylgdi.

Því er um að ræða annars konar veg en verið hefur. Við erum að sjálfsögðu ekki andvíg því að vegurinn yfir Kjöl sé gerður að góðum ferðamanna- og sumarvegi og þjóni því hlutverki vel en teljum að ekki sé heppilegt að gera uppbyggðan, malbikaðan veg á miðhálendinu með þeim hætti sem tillagan gerir ráð fyrir að verði kannað.

Hinn þátturinn sem ég vil leggja mikla áherslu á er forgangsröðun í samgöngu- og byggðamálum. Í greinargerð með tillögunni er rakið að tenging byggðarlaganna geti verið mikil byggðaaðgerð og er áhersla lögð á þann þátt. Ég dreg ekki úr mikilvægi þess að byggðarlögin verði tengd með góðum samgöngum en held að ef ákveðið yrði að flytja meginþunga umferðar á milli Norður- og Suðurlands yfir á miðhálendið með uppbyggðum Kjalvegi væri talsverður skaði unninn í málum byggðarlaga við núverandi leið á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Ég held að betra væri að stytta vegalengdir milli Norðurlands og höfuðborgarsvæðisins á þjóðvegi nr. 1, t.d. með því að breyta legu hans frá Akureyri. Hörgárdalur yrði farinn í stað Öxnadals og þaðan eftir jarðgöngum inn í Hjaltadal og yfir Þverárfjall og þannig yrði aðalsamgönguleiðin tengd við byggðarlögin. Þá væru Akureyri, Sauðárkrókur, Blönduós og fleiri staðir sem ella yrðu klipptir frá þessari mikilvægu samgönguleið á henni.

Ekkert er hægt að segja um forgangsröðun í samgöngumálum annað en að verkefnin eru óþrjótandi og uppbygging vegakerfis á hálendinu er hluti af þeim. Þá komum við aftur að því hvernig vegi við viljum hafa. Ég hefði viljað sjá annars konar veg en hér er lagt til, nefnilega hefðbundinn og góðan ferðamanna- eða sumarveg.

Verkefnin eru óþrjótandi í samgöngumálum, m.a. tengivegir víða um land. Þjóðvegur nr. 1 er víða bágborinn, á honum eru enn einbreiðar brýr og mikið aukið álag af þungaflutningum og eins og þolir hann ekki það mikla álag sem á hann er sett og þarf að gera mikla bragarbót á. Tengivegir innan héraða og milli þeirra eru brýnt viðfangsefni og til að bæta aðgengi að höfuðborginni, sem er mikilvægt fyrir alla landshluta, er nauðsynlegt að tvöfalda vegi sem liggja frá höfuðborginni hvort sem er austur fyrir fjall eða norður eða vestur á land sem og að reisa Sundabraut og fleiri stór mannvirki. Í samgöngumálum eru því fjölmörg verkefni.

Á fundum landshlutasamtaka sveitarfélaga í haust gerðu flest þeirra ákveðnar samþykktir um samgöngumál, því samgöngur skipta sveitarfélög miklu máli. Áhersla hefur verið lögð á bættar samgöngur og er af mörgu að taka í þeim efnum í öllum landshlutum. Við teljum að verkefnið sem þingsályktunartillagan snýst um sé ekki eitt þeirra sem eigi að vera í forgangi í samgöngumálum á næstunni og hef ég í grófum dráttum rakið viðhorfin sem þar liggja að baki.

Hægt væri að fjalla ítarlegar um málið en færi er á í fyrri umr. en ég vænti þess að fjallað verði um tillöguna í hv. samgöngunefnd og þar gefst ráðrúm til að fjalla betur um hana og kalla eftir viðhorfum, umsögnum og þeim rannsóknum sem þegar liggja fyrir. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að Vegagerðin hefur unnið einhvers konar samantekt, kannski ekki mjög ítarlega, um styttingu leiða þar sem hugmyndin um veg yfir Kjöl er m.a. nefnd.

Sjálfsagt er að farið sé yfir þetta en ég hefði líka viljað láta skoða til samanburðar aðrar leiðir til að stytta vegalengdir milli miðs Norðurlands og höfuðborgarsvæðisins. Ég hefði talið að nefndin ætti að gera það en í meginatriðum erum við þingmenn Vinstri grænna ekki hlynnt því að ráðist verði í uppbyggingu heilsársvegar yfir Kjöl eða yfirleitt á miðhálendinu og teljum að framtíðarstefnumótun samgöngumála á miðhálendinu þurfi að vera liður í endurskoðun á svæðisskipulagi og heildarsýn fyrir miðhálendið. Ef hér verður tekið upp landsskipulag eins og áform voru um í frumvarpi hæstv. umhverfisráðherra, sem var til umfjöllunar í umhverfisnefnd á síðasta þingi og kemur væntanlega inn í þingið á nýjan leik í vetur, er hugsanlegt að það verði betri farvegur fyrir umræðu af þessum toga en að einangra þetta ákveðna verkefni og taka það sérstaklega út.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta hér við fyrri umr., þetta voru þau sjónarmið sem ég vildi koma á framfæri. Þau eru kunnugleg og ég veit að hv. 1. flutningsmaður hefur heyrt þau áður í umræðunni í fyrra og svo sem ekkert nýtt í þeim efnum.