136. löggjafarþing — 11. fundur,  13. okt. 2008.

fjármálafyrirtæki.

14. mál
[15:37]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmenn ætla að fara ódýru leiðina í því erfiða máli sem við stöndum frammi fyrir og tala um hluti sem voru ómögulegir. Fyrst það var nefnt hér að Morgunblaðið hefði haft ákveðna stefnu uppi sem varðaði fjármálamarkaðinn þá var ritstjóri Morgunblaðsins æðioft mjög langt frá raunveruleikanum í skrifum sínum. Það er ekki hægt að halda því fram að við getum farið út fyrir þær reglur sem gilda á Evrópska efnahagssvæðinu, svo einfalt er það. Það getur vel verið að það henti einhverjum hv. þingmönnum að gera mig fyrst og fremst ábyrga í þingsalnum og þá er það bara eins og það er. En bæði það sem varðar þá uppskiptingu sem kemur fram í þessu máli og eins það að hægt hefði verið að setja reglur um hámarkseignaraðild, 10% eða hvað það nú var, sem var í umræðunni, þá var það einfaldlega ekki hægt, það var svo einfalt, nema þá við segðum lausum samningi okkar um Evrópska efnahagssvæðið.

Ég vildi að þetta kæmi fram af því að mér finnst mikilvægt að við séum ekki, þegar við förum að gera þetta mál upp, sem við munum eflaust gera, að tala um hluti sem voru óraunverulegir og óraunhæfir á þeim tíma sem við settum þessi lög. Þau lög voru mörg og þau voru mjög nákvæm en ég efast ekkert um að það sé rétt sem hefur komið fram hjá hv. þingmönnum að þau verða endurskoðuð í kjölfar þessarar kreppu. En meðan þau giltu þá giltu þau.