136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

aðgerðir til aðstoðar bændum.

[10:35]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um aðgerðir til aðstoðar bændum. Vandi þeirra og úrræði hafa lítið komið til tals í kreppunni en hann er í raun tvöfaldur. Það vita allir sem vilja vita að aðföng til þeirra hafa stórhækkað, áburðurinn yfir 100% og miklar hækkanir á aðföngum eru í pípunum. Vaxtakostnaður hefur stóraukist, flutningskostnaður og þannig mætti lengi telja.

Fjölmargir kúabændur sem hafa endurnýjað bú sín á síðustu árum eru komnir í þrot. Þeir borga yfir helming af tekjum sínum í vexti og verðbætur. Það vita líka allir hvernig staða sauðfjárbænda er. Það er sagt að um 30% bænda á landinu séu tæknilega gjaldþrota og það er ótrúlegt en satt að í forgangi hæstv. ráðherra skuli vera matvælafrumvarp sem er ógnun við matvælaöryggi, ógnun við fæðuöryggi þjóðarinnar og ógnun við hundruð starfa í matvælaiðnaðinum. Þetta er veruleikafirring, að mínu mati.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hyggst hann beita sér fyrir úttekt á stöðu bænda? Ég spyr hæstv. ráðherra: Veit hann hversu margir bændur hafa í hyggju að bregða búi í haust og á vetri komanda? Við megum ekki missa einn einasta bónda úr búrekstri í dag. Við verðum að fjölga þeim. Fæðuöryggi okkar, eins og staðan er í dag, er í húfi.

Ég spyr ráðherra líka hvort hann hyggist beita sér fyrir því að endurreisa Stofnlánadeild landbúnaðarins, lánasjóðinn. Hvernig hyggst hæstv. ráðherra tryggja búsetu og afkomu og atvinnu bænda? Hyggst ráðherra beita sér fyrir hækkun á afurðaverði til bænda með auknum niðurgreiðslum eða öðrum hætti? Hyggst ráðherra beita sér fyrir frystingu lána og endurfjármögnun? Hyggst ráðherra beita sér fyrir frekari vaxtalækkunum? Hvað hyggst hæstv. ráðherra fyrir?