136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

staða sjávarútvegsins.

[10:58]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Þetta var auðvitað eins og við mátti búast. Fyrir rúmri viku vorum við með opinn fund í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þá spurði ég þessara sömu spurninga og fékk engin svör. Ég hélt kannski að hæstv. ráðherra mundi sjá að sér og reyna að svara þessu þó að maður ætlist ekki til að það sé upp á krónur og aura en að það sé svona um það bil eins og maður segir um heildarskuldir. Eins er það hvað varðar áætlaðar tekjur. 26. september var reiknað með, samkvæmt upplýsingum frá Samtökum fiskvinnslustöðva, að áætlaðar tekjur sjávarútvegs á þessu ári yrðu 145 milljarðar. Og þegar rætt er um framlegð þá er verið að tala um 10% í besta falli, sumir tala jafnvel um 5%. Við erum því að tala um að íslenskur sjávarútvegur hafi í það heila eitthvað á bilinu 15–30 milljarða til að borga (Forseti hringir.) niður skuldir af 500–600 milljörðum.