136. löggjafarþing — 14. fundur,  16. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[12:20]
Horfa

Flm. (Jón Magnússon) (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er enginn misskilningur hjá mér varðandi þessa skuldastöðu. Það liggur alveg fyrir. Það hefur meðal annars verið sérstaklega bent á það af helsta hagfræðingi Landsbanka Íslands, Eddu Rós Karlsdóttur, að kvótasetningin var sá stofn sem var nýttur til skuldsetningar íslensku þjóðarinnar, var nýttur af bankakerfinu. Það er staðreyndin í málinu. Það eru afleiðingar kvótasetningarinnar sem við erum meðal annars að glíma við í dag vegna þess að sægreifarnir, kvótagreifarnir slógu lán. Þeir fóru á verðbréfamarkaðinn og þeir fóru margir hverjir, því miður, í fjárfestingar sem nú orka mjög tvímælis. Þetta er afleiðingin af þessu rangláta, vitlausa ránskerfi sem komið var á af stjórnvöldum á sínum tíma og hefur verið viðhaldið fyrst og fremst fyrir tilstuðlan Sjálfstæðisflokksins frá þeim tíma síðustu árin. Þetta er óréttlátt kerfi. Það er engin sátt um það og núna skiptir máli að þjóðin geti nýtt sínar þjóðarauðlindir fyrir fólkið í landinu en ekki fyrir þá fáu. Við erum að uppskera í dag afleiðingar af því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið þannig að stjórn landsins að hann hefur stjórnað fyrir þá ríku á kostnað allra annarra, hækkað skatta á láglaunafólki og fólki sem hefur meðaltekjur á meðan það hefur verið skattafsláttur fyrir þá sem hafa hæstu tekjurnar í landinu. Þessar staðreyndir erum við að horfast í augu við og það eru afleiðingar þeirrar helstefnu sem við erum að taka út þessa dagana þar sem verður meðal annars að skammta gjaldeyri og við erum komin aftur til fyrir 1960 áður en viðreisnarstjórnin tók við völdum fyrir tilstuðlan þess að menn í Sjálfstæðisflokknum fylgdu ekki sjálfstæðisstefnunni heldur davíðskunni.