136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

hækkun stýrivaxta.

[13:40]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Það sannaðist á viðbrögðum hv. þm. Guðna Ágústssonar að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Það er einfaldlega þannig að Seðlabankinn tekur þessa ákvörðun. Hv. þingmaður spurði um það hvenær ríkisstjórnin (Gripið fram í.) mundi leggja fram heildstætt plan sitt í þessum efnum. Það hefur komið fram nú þegar að einstakir ráðherrar hafa ráðist í umfangsmiklar aðgerðir til að lina þær þjáningar sem fjölskyldur og heimilin og fyrirtækin í landinu hafa orðið fyrir vegna þessara alvarlegu hamfara sem skekið hafa íslenskt samfélag. (Gripið fram í.) Hins vegar lýsti hæstv. forseti því hér yfir að á fimmtudaginn færi fram umræða um þessi mál. Þá mun forsætisráðherra flytja skýrslu og greina frá þeim viðbrögðum sem ríkisstjórnin hefur nú þegar gripið til og sömuleiðis þeim aðgerðum sem hún hyggst grípa til. (Forseti hringir.) Eins og menn hafa þegar séð er ákaflega margt sem ríkisstjórnin hefur nú þegar gert til að draga úr kvíða og öryggisleysi fólks.