136. löggjafarþing — 15. fundur,  28. okt. 2008.

málefni sveitarfélaga.

[13:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Spurningar mínar til hæstv. ráðherra voru reyndar ekkert óskaplega flóknar og hefði verið hægt að svara þeim í fáum orðum.

Hefur ríkisstjórnin rætt vanda sveitarfélaga og til hvaða aðgerða hyggst hún grípa? Mér finnst mikilvægt að fá það fram hvort hæstv. samgönguráðherra hefur gert ríkisstjórninni grein fyrir þeim vanda sem blasir við sveitarfélögunum og hvort ríkisstjórnin hyggst grípa til einhverra ráðstafana. Ég spyr líka hvað ráðherrann hyggst gera varðandi viðbótarframlagið í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga upp á 1.400 milljónir. Áður hefur verið spurt um það hér en engin svör komið fram og er mikilvægt að ráðherra taki af allan vafa um þetta. Hafði ráðherrann samráð við sveitarfélögin eins og samstarfssáttmáli ríkis og sveitarfélaga gerir ráð fyrir að sé gert þegar svona ákvarðanir eru teknar, að setja inn í fjárlagafrumvarpið forsendu um lækkun fasteignaskattsins? Það er mikilvægt að fá þetta fram.

Mér virðist á þeim svörum sem ég hef þegar fengið að enginn málsvari sé fyrir sveitarfélögin í ríkisstjórninni. Sú staða er hins vegar uppi að það þarf neyðaráætlun gagnvart sveitarfélögunum í landinu (Forseti hringir.) og ráðherrann á að beita sér fyrir því nú þegar.