136. löggjafarþing — 16. fundur,  29. okt. 2008.

heimild til að draga opinber gjöld af launagreiðslum.

82. mál
[14:49]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Í 115. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er kveðið á um að launagreiðanda sé skylt, að kröfu innheimtumanns ríkissjóðs, að halda eftir hluta af kaupi launþega til lúkningar gjöldum sem launþegar bera sjálfsskuldarábyrgð á og innheimta ber samkvæmt ákvæðum 112. gr. laganna, þó að hámarki 75% af heildarlaunagreiðslum hverju sinni. Nánari ákvæði um framkvæmd þessa innheimtuúrræðis er að finna í reglugerð nr. 124/2991, um launaafdrátt.

Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir að innheimtumanni sé heimilt að semja við launþega um lækkun umbeðins launafrádráttar ef sýnt þykir að tekjur launþega muni ekki duga til framfærslu hans, maka og barna sem hann hefur á framfæri sínu. Með slíku samkomulagi er jafnframt heimilt að fresta aðfarargerð vegna kröfunnar skv. 2. mgr. sömu greinar. Ákvæði þessi eru í samræmi við meðalhófsreglur stjórnsýsluréttar og í þeim felst að innheimtumenn skuli ekki ganga lengra við innheimtu vangoldinna opinberra gjalda en svo að fullnægt sé því lögmæta markmiði 105. gr. tekjuskattslaga að tryggja skilvirka innheimtu þeirra gjalda sem standa eiga undir sameiginlegum útgjöldum ríkisins. Um þá kvöð sem heimilt er að leggja á launagreiðanda samkvæmt ákvæðinu, þ.e. að halda eftir af kaupi launþega, gildir þannig sama meginregla og um aðrar íþyngjandi ákvarðanir stjórnvalda að hún getur aðeins komið til greina þegar því markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með vægara móti. Jafnframt gildir að ekki skal gengið lengra við beitingu úrræðisins en nauðsyn ber til.

Heimild til að gera kröfu um að launagreiðandi haldi eftir af kaupi launþega er eitt veigamesta úrræðið til innheimtu opinberra gjalda sem innheimtumenn ríkisins búa yfir. Ákvæði um að launþegi haldi eftir að lágmarki 25% heildarlaunagreiðslna og heimildir til þess að taka tillit til félagslegra aðstæðna launþega við beitingu úrræðisins eru jafnframt mjög mikilvægar til þess að ekki sé gengið um of á ráðstöfunartekjur einstaklinga. Í því sambandi er rétt að benda á að tekið er tillit til staðgreiðslu opinberra gjalda, lögbundinna iðgjalda til lífeyrissjóða og stéttarfélaga og vangreiddra meðlaga launþega, sé þeim til að dreifa, ef launaafdrætti er beitt og launþegar halda því alltaf eftir a.m.k. 25% launa sinna.

Í ljósi þess sem að framan er sagt hefur fram til þessa ekki verið talin sérstök ástæða til þess að gera breytingar á 115. gr. tekjuskattslaga, m.a. vegna þess hversu sveigjanlegar reglur um launaafdrátt eru fyrir innheimtumenn til þess að koma til móts við launþega á einstaklingsbundinn hátt.