136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[11:27]
Horfa

Guðni Ágústsson (F):

Hæstv. forseti. Þegar ég gekk yfir Austurvöll á leið til þingsins á þessum fallega morgni voru við styttu Jóns Sigurðssonar leikskólakennarar með mörg lítil börn. Leikskólakennurunum þótti ég niðurlútur og brúnaþungur og ávörpuðu mig og sögðu að það þýddi ekkert, heldur yrðum við að horfa til framtíðarinnar. Þeir bentu mér á börnin og hvöttu til varna í kringum ungt fólk.

Kannski er það kjarni málsins að við þurfum að líta upp og gera okkur grein fyrir því að við eigum ærin tækifæri þrátt fyrir hvernig allt hefur þróast á síðustu vikum þessa langa októbermánaðar.

Hæstv. forseti. Í upphafi vil ég sérstaklega þakka hæstv. utanríkisráðherra sem hefur tekið upp harða vörn og sókn gegn flokksbræðrum sínum í Bretlandi, eftir að hún kom aftur til starfa. Ég sagði einhvern tímann úr ræðustól að sorglegt hefði verið hinn 9. október að í því starfi skyldi ekki hafa verið alvörustjórnmálamaður, en vegna veikinda var hæstv. utanríkisráðherra fjarverandi. Þegar Gordon Brown lýsti Ísland gjaldþrota og réðst að Íslendingum og íslenskri þjóð með hryðjuverkalöggjöf — sem er einhver óvægnasta árás sem ein þjóð hefur orðið fyrir — sagðist hæstv. forsætisráðherra því miður ekki vilja munnhöggvast við breska forsætisráðherrann.

Þar varð eitt slysið enn á vegferð okkar að við skyldum ekki taka það mál strax upp af meiri festu en gert var af hálfu ríkisstjórnarinnar og kæra Bretana, eins og ég sagði hinn 10. október. Kæra þá fyrir alþjóðasamfélaginu. Kæra þá fyrir að lýsa Ísland gjaldþrota, sem engum hafði í rauninni dottið í hug. Þeir lokuðu öllum dyrum fyrir íslenskri þjóð um víða veröld hægt og hljótt og menn urðu hugsi þegar þessi valdamikla þjóð í Evrópu lýsti Ísland gjaldþrota og sagði að við óbótamenn og hálfgerða hryðjuverkamenn væri að eiga. Ég vil þakka viðbrögðin, því þótt þau komi seint eru þau mikilvæg, og mjög mikilvægt er að halda því fram að við eigum kröfur á hendur breskum stjórnvöldum fyrir að hafa gert kreppuna miklu alvarlegri en hún hefði annars orðið.

Engin spurning er um að þegar Bretar fóru inn í íslensku bankana út af Icesave-reikningunum felldu þeir Kaupþingsbankann í Bretlandi, sem var breskt fyrirtæki í eigu Íslendinga, og um leið féll móðurfélagið hér heima. Það dýpkaði kreppuna og gerði hana enn þá alvarlegri viðfangs hér heima við, þannig að ég fagna því að breskir lögmenn á vegum Kaupþings og Íslendinga hafa hafið að skoða hvernig megi sækja Breta til saka. Fast þarf að fylgja því eftir, sem ég sagði í upphafi, hvernig með okkur var farið af forsætisráðherra Bretlands við þessar aðstæður.

Ég vil vekja athygli á því hæstv. forseti að vel kann að vera að reiði Bretanna hafi verið mikil út frá framgöngu íslenskra stjórnmálamanna. Það gerðist núna fyrir nokkrum dögum að einhverjir í ríkisstjórninni — hvort það voru samfylkingarmennirnir eða sjálfstæðismennirnir veit ég ekkert um — láku í Kastljós samtali Árna M. Mathiesen hæstv. fjármálaráðherra og kollega hans í Bretlandi. Vel kann að vera að menn hafi haldið að fjármálaráðherra skaðaðist af viðtalinu. Ég hygg að í því hafi margt sem við var að glíma komið í ljós.

Hæstv. forsætisráðherra. Mjög mikilvægt er að minnisblað af fundi hæstv. viðskiptaráðherra Björgvins Sigurðssonar við breska ráðherra og stjórnvöld 2. september verði gert opinbert. Þingið á rétt á að þessi gögn verði lögð á borðið til að hægt sé að átta sig á heildarmyndinni.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn höfum staðið að neyðarlögunum. Við höfum gert okkur grein fyrir því að þessi kreppa er margþætt. Íslenskir athafnamenn og auðmenn eiga stóra sök á hvernig farið hefur. Fjármálakreppan á, eins og víða um veröld, enn stærri þátt í hvernig þetta hefur allt saman þróast. Þess vegna var það niðurstaða framsóknarmanna, eftir jaml og japl og fuður, þegar allar dyr voru lokaðar íslenskum stjórnvöldum um hjálp, að standa að því og fallast á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi að málefnum Íslands. Fyrst og fremst sem blessandi hönd sem gæti opnað dyr á nýjan leik sem öryggisatriði fyrir Ísland. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna fóru yfir það með forsætisráðherra og hann sagði ekkert vera í skilyrðunum sem væri að óttast. Við höfðum haft áhyggjur af því og óttuðumst sérstaklega þau gamaldags úrræði sem sjóðurinn hefur víða beitt í slíkum þrengingum að keyra vexti upp á nýjan leik. Ég er alveg klár á því að slíkt á ekki við á Íslandi og var skaðlegt.

Þess vegna undra ég mig á því af hverju megnið af hæstv. ríkisstjórn fór úr landi og síðan skall á vaxtahækkun Seðlabankans, sem þrettán dögum fyrr hafði keyrt vextina úr 15,5% niður í 12%. Nú voru vextirnir keyrðir upp í 18%. Af þessari ákvörðun hef ég meiri áhyggjur en nokkurri annarri. Það birti yfir þjóðinni þegar vextirnir lækkuðu. Vaxtahækkunin mun hafa mikil áhrif á fyrirtæki í erfiðleikum svo ég tali ekki um skuldug heimili. Maður finnur gjarnan að það er eins og margt hafi brostið við þessa ákvörðun.

Hæstv. forseti, við þessar aðstæður hefur það verið mér undrunarefni að heyra í ráðherrum sem hafa barið sér á brjóst. Ég átti t.d. viðræður við hæstv. iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson í fyrradag þar sem ég spurði hvort vaxtahækkunin hefði verið skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða einkaákvörðun Seðlabankans þótt ríkisstjórnin hefði komið að þessu. Allir vita að útúrsnúningar og dónaskapur hæstv. iðnaðarráðherra var einstakur við þessar aðstæður. Hann fullyrti að Seðlabankinn hefði tekið ákvörðunina og ríkisstjórnin hvergi komið að. Nokkrir ráðherrar, m.a. varaformaður Sjálfstæðisflokksins hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hafa sagt að Seðlabankinn einn beri ábyrgð á þessu. (Gripið fram í.) Hæstv. utanríkisráðherra hefur sagt slíkt hið sama sem og hæstv. iðnaðarráðherra. Áður en ég fór í ræðustól leit ég inn á heimasíðu Seðlabankans sem sá ástæðu til þess í morgun að skýra sína hlið málsins. Í athugasemd frá Seðlabanka Íslands segir, með leyfi forseta:

„Eins og kunnugt er hefur verið litið svo á að samningsgerð (Letter of Intent) á milli ríkisstjórnar Íslands og sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé enn trúnaðarmál. 19. tl. samningssgerðarinnar er þó eðli málsins samkvæmt ekki lengur trúnaðarmál. Ráðherrar úr ríkisstjórn hafa undrast vaxtahækkun í 18% og hafa jafnframt sagt að ekkert ákvæði um slíka gjörð sé í samningsgerðinni. Í samningsgerðinni segir í 19. tl.: „To raise the policy interest rate to 18 percent.““

Það liggur fyrir, hæstv. forsætisráðherra. Seðlabankinn fékk samning sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafði gert við ríkisstjórn Íslands um að til þess að hann færi í þann leiðangur með Íslendingum að opna dyrnar um allan heim yrði að hækka vextina í 18%. Sorglegt er við þessar aðstæður að margir ráðherrar eru staðnir að því að segja ósatt. Hæstv. iðnaðarráðherra skrökvaði hér í fyrradag. Hann hlýtur að hafa vitað betur og ég vil að hæstv. forsætisráðherra skýri það hér. Er Seðlabankinn að fara með rangt mál með þessari yfirlýsingu? Fer hann með rétt mál? Ég vil hafa það á hreinu í lok þessarar umræðu hvort slíkt samkomulag hafi verið gert. Þingmenn og Alþingi Íslendinga eiga rétt á að þessi gögn verði öll lögð á borðið.

Ég hef áhyggjur af vaxtahækkuninni og sé að hagfræðingar, sem margir hverjir hafa oft haft rétt fyrir sér um viðbrögð ríkisstjórnarinnar, óttast mjög afleiðingar þessarar ákvörðunar. Henni mun fylgja hrina gjaldþrota bæði hjá heimilum og fyrirtækjum. Því munu peningarnir sem menn halda að þeir dragi heim ekki koma í gegnum þessa aðgerð, því Ísland er um þessar mundir í litlu áliti bæði hjá íslenskum fjárfestum og athafnamönnum og þeir vilja áreiðanlega ekki hætta fé sínu. Það hafa þeir sjaldan gert. Þannig að ég efast um aðgerðina og spyr hæstv. forsætisráðherra. Hvað þarf hún að standa lengi?

Ég hef vakið athygli á tvískinnungi af hálfu ráðherra og ómerkilegrar umræðu þar sem þeir víkja sér undan því að hafa fallist á í ríkisstjórninni að vaxtahækkun væri frumforsenda þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kæmi að málefnum okkar. Ég vil hafa það á hreinu.

Hæstv. forseti. Við framsóknarmenn teljum mjög mikilvægt að hvítbók sannleikans verði skrifuð um þessa margþættu og flóknu atburðarás. Sjálfsagt eru margir sekir og margir hafa brugðist, bæði íslenskir stjórnmálamenn fyrr og síðar. Eftirlitsstofnanir, Fjármálaeftirlitið, Seðlabankinn. Hvers vegna hafði Fjármálaeftirlitið ekki oft farið og skoðað lifur og lungu í bankakerfinu? Það hafði heimildir frá Alþingi Íslendinga til að velta fyrir sér þeim krosstengslum og hringamyndunum sem nú er upplýst um daglega. Margir hafa brugðist og mikilvægt er að fá hlutlausa aðila til að rannsaka málið. Þeir verða að vera erlendir því vináttu og vild yrði vantreyst ef þeir væru íslenskir.

Að lokum vil ég segja, hæstv. forseti, að ekkert er mikilvægara nú en að horfa bjartsýnn fram á við. Við eigum að geta bjargað okkur út úr þessum vanda og það gerir íslensk þjóð fyrst og fremst með samstöðu. Sem allra fyrst þarf hæstv. ríkisstjórn að lýsa því yfir að hún ætli að gefa í, taka utan um heimilin og gera allt með skynsamlegum hætti. Þess vegna segi ég hæstv. forsætisráðherra að kalla aðila vinnumarkaðarins og stjórnarandstöðuna oftar að borðinu og fara yfir ráðagerðir, en aðilar vinnumarkaðarins gagnrýndu t.d. vaxtahækkunina. Gefa þarf út þá bjartsýnu skipun sem fyrst að aðstæður í sjónum leyfi aukningu aflans. Við eigum landbúnaðinn sem er okkur dýrmætari en fyrr og matarforðabúr Íslendinga við þessar aðstæður. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur sagt að framtíðarstaða okkar sé öfundsverð. Úr þessu verðum við öll að vinna af mikilli samstöðu. Orka landsins og orka mannauðsins eru þau dýrmæti sem við eigum. Þess vegna er mikilvægt að vinna hratt og vel. (Forseti hringir.) Reisa sig frá því að vera (Forseti hringir.) þungbrýnn og daufgerður og alvarlegur. Setja gleðina í gang og róa í takt. Framtíð okkar Íslendinga (Forseti hringir.) er björt.