136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[12:51]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það þjónar endilega miklum tilgangi í umræðum um svo alvarleg mál að standa í orðhengilshætti eins og hér hefur verið stundaður bæði í gær og í dag. Kjarni þessa máls er að íslensk stjórnvöld hafa sent áætlun til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem verður tekin fyrir á þriðjudag. (Gripið fram í: Komu ráðherrar Samfylkingarinnar að þeim málum?) Án þess að ég geti fullyrt um það tel ég víst að þeir ráðherrar sem hafa verið í forustu fyrir ríkisstjórnina af okkar hálfu hafi komið að þessu á einn eða annan hátt. (Gripið fram í: Það hefur einn þingflokkur …)

Virðulegi forseti. Ég verð að leyfa mér að klára. Málið er að ríkisstjórnin, framkvæmdarvaldið, er að taka þessa ákvörðun. Þetta mun án efa koma síðar fyrir þingið, það er alveg klárt, en ríkisstjórnin hefur klárt umboð þingsins. Hún styðst við mjög stóran meiri hluta hér á þingi og vinnur að sínu verki í (Forseti hringir.) því umboði. Hvernig ráðherrar vinna (Forseti hringir.) nákvæmlega frá degi til dags, ætla ég að leyfa mér að segja, (Forseti hringir.) hef ég kannski ekki nákvæma skýrslu um. (Forseti hringir.) Ég get því ekki svarað hv. þingmanni betur en svona.