136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:03]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég sé ekki að það komi málinu nokkuð við sem við ræðum hér en það hefur komið fram í fréttaflutningi af þessum svokallaða „leynifundi“ sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir nefnir, að þar var verið að kynna fyrir fulltrúum þeirra fyrirtækja og stofnana sem þarna er um að ræða, vinnu sem farið var af stað með á vegum ríkisstjórnarinnar til þess að endurheimta orðspor Íslands á erlendri grundu og traust á þjóðina. Sú vinna tók um það bil tíu daga. Búin var til aðgerðaáætlun á átta blaðsíðum og henni skilað til ríkisstjórnar. Á því tímabili sem hún var unnin var rætt við hátt í 40 manns eingöngu til þess að kynna vinnuna, og óska eftir hugmyndum og tillögum í starfið sem fram undan er.

Það er langt í frá að þar hafi verið reynt að leggja einhverjar línur fyrir þá fjölmiðla sem komu á fundinn. Mér þykir afar athyglisvert að hv. þingmaður skuli finna það upp hjá sér að koma hér upp og fjalla um eitthvað allt annað og óskylt mál sem birtist í fjölmiðlum fyrir mörgum dögum í refsingarskyni fyrir að mér skyldi hafa dottið í hug að gagnrýna þann ágæta flokk Vinstri græna og framlag hans til umræðunnar.