136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[18:07]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er lýsandi fyrir þann málflutning sem ég var að gagnrýna hér áðan. Af hverju kallar hv. þingmaður þennan fund „leynifund“ sem búið er að greina frá í bak og fyrir, bæði hverjir sóttu hann, hvar hann var haldinn og hvenær og hvað rætt var á honum? (ÁI: Hann var kallaður leynifundur.) Af hverju er hann kallaður leynifundur þegar búið er (Gripið fram í.) að upplýsa það allt saman fyrir hv. þingmanni?

Það er alþekkt að fyrirtæki, stofnanir og jafnvel stjórnmálaflokkar haldi kynningarfundi fyrir fjölmiðla (Gripið fram í.) án þess að fjallað sé sérstaklega um það sem kynnt er heldur er það til upplýsingar fyrir fjölmiðlamenn og stjórnendur til þess að draga fram ólíkar hugmyndir. Hefur það aldrei hent hv. þingmann að ræða óformlega við einhvern fjölmiðlamann hér á landi? (Gripið fram í.) Er það þá alveg sjálfgefið að í hvert einasta skipti sé um leynisamtal að ræða þar sem hv. þingmaður reynir að koma einhverjum annarlegum sjónarmiðum síns stjórnmálaflokks á framfæri við fjölmiðlamanninn? (ÁI: Voruð þið að því?) Hvers lags er þetta?