136. löggjafarþing — 17. fundur,  30. okt. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

[19:25]
Horfa

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Ármanns Kr. Ólafssonar og tók eftir því að hann nefndi að við þyrftum að laða að erlenda fjárfesta og byggja upp atvinnulífið hér. Nú háttar þannig til að við erum nokkur nýkomin af þingi Norðurlandaráðs sem var haldið í Helsinki. Þar hélt þingmaður frá danska þinginu, Lene Barfod, ræðu, en hún er úr sósíalistaflokknum Vinstri grænum. Hún hélt því fram að eitt af því mikilvægasta sem Norðurlöndin gerðu væri að fjárfesta í loftslagsmálum. Þetta var skýr og ákveðin skoðun þessa hv. þingmanns. Forsætisráðherra Dana ræddi mikið um græna orku, hún væri framtíðarlausnin, hún væri framtíðin og að við þyrftum að fara út í að finna upp græna orkugjafa og leysa vandamál okkar með því.

Nú langar mig að spyrja, þar sem hv. þingmaður ræddi um erlenda fjárfesta sem þyrftu að koma hingað til lands, hvort við eigum að skoða breytingu á lögum um umhverfismat og hvernig við eigum að laða þessa fjárfesta að með tilliti til þess að það er ósk og nánast krafa af þessum þingum að við notum og virkjum græna orkugjafa á Norðurlöndum.