136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:07]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður dragi of miklar ályktanir af því sem ég sagði hér. Ég vil nefna í þessu samhengi að í greinargerð með tillögunni eru tiltekin margvísleg dæmi sem ég er algjörlega ósammála um að eigi að taka úr höndum opinberra aðila. Ég get t.d. vísað til rannsóknarstarfsemi sem tengd er Landspítalanum eða heilbrigðisstofnunum. Oft og tíðum eru sú starfsemi og rannsóknir og jafnvel þjónusta o.s.frv. svo nátengdar að það verður ekki með góðu móti aðskilið. T.d. er Tilraunastöð Háskóla Íslands nefnd í greinargerð með þessari tillögu en þar eru þjónusturannsóknir og vísindalegar rannsóknir nánast óaðskiljanlegar og verða að haldast í hendur til þess að þjóna, má segja, hinum vísindalega tilgangi.

Ég tók líka á sínum tíma dæmi um Landmælingar sem nefndar eru hér í þessari tillögu og ég tók líka fyrir það sem hér er nefnt um Siglingastofnun og verkefnin þar. Þar erum við með tiltölulega smáar ríkisstofnanir sem sinna mjög mikilvægu hlutverki. Það mundi kippa grundvellinum undan þeim ef það sem að einhverju leyti er hægt að markaðsvæða er síðan tekið vegna þess að einhverjum markaðsaðilum, einkaaðilum, dettur í hug að fara inn á þann markað. Þessu viðhorfi er ég ósammála í málflutningi hv. þingmanns. Það kann þó vel að vera að við getum orðið sammála hvað varðar póstþjónustuna sérstaklega, að hana eigi að efla og styrkja, en það verður þá að gera það. Það er ekki það sem Íslandspóstur hefur verið að gera og ekki það sem núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera í málefnum póstsins.