136. löggjafarþing — 18. fundur,  31. okt. 2008.

samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga.

32. mál
[14:24]
Horfa

Flm. (Ásta Möller) (S) (andsvar):

Já, sem sagt, hv. þingmaður, virðulegur forseti, það hefði átt að selja strax, en ekki búa til hlutafélag, fyrirgefið útúrsnúninginn.

Í svari hv. þingmanns kom fram að Íslandspóstur jók starfsemi sína, útvíkkunarstarfsemi, í ákveðnum tilgangi. Það má vel vera og er örugglega hárrétt hjá hv. þingmanni. Það eru bara aðrar ríkisstofnanir sem nota önnur rök til þess að víkka út starfsemi sína. Vegna þess að þær eru með svo hæft starfsfólk, þurfa meiri sértekjur og starfsemi þeirra er svo sérhæfð að einungis þær geta séð um hana, t.d. eru búnar til tölvudeildir þegar stofnanirnar mundu fá meira út úr því að kaupa tölvuþjónustu.

Við tölum því um að ýmsar ríkisstofnanir og stofnanir sveitarfélaga fari út fyrir kjarnasvið sitt af miklum metnaði og þrengi síðan að starfsemi einkaaðila. Ég er þeirrar skoðunar að ríkisstofnanir þurfi virkilega að gæta sín. Þær eru í ákveðinni aðstöðu, þær geta gnæft yfir og þrengt að og ég er þeirrar skoðunar að þær þurfi að passa sig að þrengja ekki að einkaaðilum. Þetta er mín skoðun og ég get yfirfært lýsinguna á Íslandspósti yfir á mjög margar stofnanir þannig að þá getum við kannski verið sammála að einhverju leyti þótt það sé kannski ekki markmið umræðunnar að vera sammála um það.