136. löggjafarþing — 20. fundur,  5. nóv. 2008.

sæstrengir í friðlandi Surtseyjar.

77. mál
[14:30]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil bara bæta því við að ég vil fullvissa hv. þingmann um að þetta mál skapar ekki fordæmi fyrir annað og meira, eins og hv. þingmaður orðaði það í ræðu sinni. Auðvitað bera stjórnvöld á Íslandi mikla ábyrgð vegna þess að við höfum tilnefnt Surtsey og fengið hana skráða á heimsminjaskrá UNESCO og ef einhverjar athugasemdir koma frá skránni verður auðvitað að mæta því. Þær hafa ekki borist og mér er ekki kunnugt um að það hafi gerst.

En að öðru leyti ætla ég alls ekki að standa hér og reyna með nokkrum hætti að draga úr ábyrgð stjórnvalda á þeirri friðlýsingu og þeirri tilnefningu eins og hún hefur verið framkvæmd.