136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:40]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Vissulega er þörf á þessari umræðu þó að ekki væri til annars en að undirstrika að þingheimur og stjórnvöld eru sannarlega með hugann við þetta viðfangsefni, þ.e. heimilin og húsaskjólið. Um erfiðleikana þarf ég ekki að fjölyrða, þeir blasa við öllum.

Eins og hér hefur verið upplýst eru nú í gangi á vegum ráðuneyta sérstakir viðbragðshópar um tillögur um aðgerðir á þessum vettvangi og áfram verður haldið á þeirri braut. Staðan breytist fljótt frá degi til dags og hún getur enn versnað og þess vegna er þetta lífróður. Það má enginn halda eða láta í það skína að Alþingi Íslendinga taki ekki þátt í þessum róðri.

Á tímum sem þessum finnum við til þess að Íslendingar eru ein stór fjölskylda. Hver og einn þarf að taka þátt í þessu björgunarstarfi. Hið opinbera getur ekki skipulagt allt eða bjargað öllu. Það þarf frumkvæði og úrræði af hálfu samfélagsins, félagasamtaka og einstaklinga með því að halda beinlínis utan um hvert annað, bjóða fram krafta okkar, bjóða jafnvel fram aðstöðu á heimilum og taka þátt í heimilishaldi hvert annars ef allt um þrýtur.

Sú röskun sem kann að eiga sér stað í heimilismissi og upplausn er sömuleiðis mikil andleg áreynsla, taugaáföll og hreinlega uppgjöf. Við þessu verður einnig að bregðast, það er hluti af vörn heimilanna. Í þessari baráttu verðum við öll að standa saman sem ein stór fjölskylda og það eru leiðir út úr þessum ógöngum og það birtir upp um síðir.

Herra forseti. Ástandið er slæmt, það er okkur öllum ljóst. Það hjálpar ekki til í augnablikinu að deila um orsakir og skammast út af orðnum hlut. Þær deilur geta beðið og verða gerðar upp síðar. Í stað þess að leita sökudólga er það hlutverk okkar þingmanna að snúa bökum saman, finna sameiginlega ráð til að lágmarka skaðann og þar hefur stjórnarandstaðan vissulega sínu hlutverki að gegna. Við, bæði Íslendingar allir og þingmenn sérstaklega, hvar í flokki sem við stöndum, eigum á næstu vikum að standa saman, telja kjark í fólk og tala einni röddu. Það er okkar sameiginlega verkefni að gefa fólki von og trú. Skammir, rifrildi og svartagallsraus gera ekkert gagn. Ábyrgð okkar felst í því, herra forseti, að brjótast og berjast út úr þessum vanda og róa öll í sömu átt.