136. löggjafarþing — 21. fundur,  6. nóv. 2008.

afkoma heimilanna.

[12:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Íslenskt samfélag hefur orðið fyrir miklu áfalli með hruni bankakerfisins. Við þessar aðstæður er mikilvægast að við komum á fjármálastöðugleika og verjum öflugt atvinnulíf sem byggir á landsins gæðum. Það eru þessir þættir öðrum fremur sem eru mikilvægir þegar kemur að því að verja hagsmuni heimilanna í landinu.

Styrking krónunnar og lækkun vaxta eru grundvallarforsendur fyrir því að ná efnahagsstöðugleika til lengri tíma litið. Það má vera að við verðum um stund að færa enn frekari fórnir til að ná því markmiði eins og kemur fram í mati Seðlabankans og jafnvel annarra og síðan þurfi að hækka stýrivexti tímabundið. En við verðum að grípa til brýnna aðgerða til að hjálpa skuldsettum heimilum og það án tafar. Það er sitthvað sem við getum gert. Við þurfum að tryggja t.d. möguleika Íbúðalánasjóðs til að veita greiðsluerfiðleikalán til þeirra sem skulda bönkunum, einnig að sjóðurinn geti aðstoðað íbúðarkaupendur þegar kemur að vaxtaendurskoðun bankanna á íbúðalánum Við þurfum að afnema stimpilgjöld af húsnæðislánum til að greiða fyrir endurfjármögnun þeirra. Við þurfum að skoða þann möguleika að heimila einstaklingum að nýta viðbótarlífeyrissparnað sinn til að greiða höfuðstól húsnæðislána í þeim tilfellum þar sem metið er að slík aðgerð beri árangur. Við verðum við þessar aðstæður að horfa sérstaklega til ungs fólks og barnafjölskyldna. Við verðum að tryggja að öll börn og unglingar geti notið leikskóladvalar, náms- og tómstunda óháð efnahag og félagslegri stöðu og við þurfum að skoða möguleika á breytingum á barna- og vaxtabótum auk tekjutengingar á endurgreiðslum námslána. Þetta eru hlutir, virðulegi forseti, sem er mikilvægt að grípa til án mikillar tafar og Alþingi hefur sýnt það stundum í verkum sínum og stjórnsýslan að hægt er að vinna hraðar en sá snigilshraði sem oft einkennir störf okkar býður upp á. Þetta er sá farvegur sem þarf að búa til núna.

Atvinnuleysi er eitthvað það versta sem á okkur getur dunið. Við verðum að beita öllum tiltækum ráðum til að efla atvinnustigið. Við verðum að líta til lífeyrissjóðanna og skapa forsendur fyrir þá til að koma að endurreisn íslensks atvinnulífs. Við verðum að auka neyslu á innlendri framleiðslu og efla þannig atvinnulíf og spara mikilvægan gjaldeyri. Við þurfum að flýta mannaflsfrekum framkvæmdum og haga þeim þannig að ekki þurfi að koma til útboða á EES-svæðinu. Við verðum að berjast fyrir hagsmunum Íslands í loftslagssamningum og verja íslenska ákvæðið. Það er okkur gríðarlega mikilvægt til lengri tíma litið. Aðrar áherslur geta skaðað okkur verulega í atvinnumálum þjóðarinnar í framtíðinni. Við verðum að endurskoða verkferla og vinnubrögð vegna umhverfismats og leggja áherslu á takmarkaðri tímafresti en nú er. Við megum engan tíma missa. (Gripið fram í.) Við þurfum að sýna samstöðu um að á gæðum lands og sjávar byggjum við upp öflugt mannlíf til framtíðar og hvaða skoðanir fólk hefur annars staðar í veröldinni á þeirri stefnu sem við þurfum að fylgja í þeim efnum má ekki ráða för.

Virðulegi forseti. Fjölskyldan er hornsteinn samfélagsins og heimilið er öryggi fjölskyldunnar og hornsteinn hennar. Við verðum að verja þessa hornsteina í samfélagi okkar með öllum tiltækum ráðum.